Þjóðernissinnaði hægriflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) eða Valkostur fyrir Þýskaland bætti í dag við sig fylgi í sambandslöndunum Saxlandi og Brandenborg, en þingkosningar fóru þar fram í dag.
Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, verður þó áfram stærsti flokkurinn í Saxlandi þrátt fyrir fylgistap. Í Brandenborg hlaut flokkur Merkel næst mest fylgi, rétt á eftir Sósíaldemókrötum sem hafa þar lengst af setið við stjórnvölinn.
Í Saxlandi hlutu Kristilegir demókratar 32,1% fylgi en voru með 39% í síðustu kosningum árið 2004. Á sama tíma hlaut AfD 27,5% sem er gríðarmikil aukning frá þeim 9,7% sem flokkurinn hlaut þar síðast. Í Brandenborg fengu Sósíaldemókratar 26,2%, niður úr 31,9% í síðustu kosningum. AfD fékk þar 23,5%, sem var mikil fylgisaukning frá þeim 12,2% sem flokkurinn hlaut þar í síðustu þingkosningum.
Fylgistap stóru flokkanna tveggja var minna en spár gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir það hafa flokkarnir ekki séð minna fylgi í fleiri áratugi á þessum svæðum. Forystufólk AfD hafði gert sér vonir um að flokkurinn yrði stærstur í Brandenborg en það hefði orðið mikið áfall fyrir áðurnefnda flokka sem sitja jafnframt saman í ríkisstjórn.
