Borgarráð í Prag ákvað á fimmtudag að taka niður styttu af sovéska herforingjanum Ivan Konev. Styttan hefur verið umdeild og margsinnis unnin á henni skemmdarverk.
Konev, sem lést árið 1973, var einn af æðstu mönnum rauða hersins. Hann leiddi herdeildir sem frelsuðu Tékkóslóvakíu undan nasistum í maí árið 1945 og árið 1980 var styttan af honum reist.
Eftir að járntjaldið féll árið 1989 varð styttan umdeild. Rifjað var upp að Konev hefði tekið þátt í að bæla niður uppreisnina í Ungverjalandi árið 1956 og komið að því að Berlínarmúrinn var reistur árið 1961. Þá vilja sumir meina að hann hafi komið að því að bæla niður uppreisnina í Tékkóslóvakíu 1968.
Margsinnis hefur málningu verið slett á styttuna og mótmæli verið haldin við hana. Ný stytta verður reist á staðnum til minningar um frelsunina en ekki Konev.
Sendiráð Rússlands mótmælti ákvörðuninni harkalega og vonast eftir því að styttunni verði fundinn annar staður.
Taka niður umdeilda styttu
Kristinn Haukur Guðnason skrifar
