Erlent

Sterkur fellibylur stefnir að Japan

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattamynd NASA af Hagibis yfir Norður-Maríönnueyjum í Kyrrahafi í gær.
Gervihnattamynd NASA af Hagibis yfir Norður-Maríönnueyjum í Kyrrahafi í gær. Vísir/EPA
Fellibylurinn Hagibis í vestanverður Kyrrahafi stefnir nú að Honshu-eyju Japans. Hann náði aftur stærðinni fimm eftir að hann veiktist lítillega í gær. Möguleiki er á að bylurinn fari beint yfir höfuðborgina Tókýó um helgina.

Veðurfræðingar búast við því að Hagibis veikist þegar hann færist norður og norðaustur á bóginn. Útlit er fyrir að stormurinn fari nærri eða gangi á land á Honshu-eyju, stærstu og fjölmennustu eyju Japans.

Veruleg óvissa er enn í spám en mögulegt er að fellibylurinn fari yfir Tókýó á laugardag, að sögn Washington Post. Þá gæti hann hafa veikst niður í fellibyl af stærðinni tveir.

Eins og stendur er fellibylurinn sagður óvenjustór. Auga hans er 56 kílómetrar að þvermáli. Mesti viðvarandi vindhraði var um 72 metrar á sekúndu í morgun. Þrátt fyrir að stormurinn veikist er talið að hvassviðrið sem fylgir honum verði víðfeðmara með hættu á sjávarflóðum, úrhellisrigningu og flóðum, aurskriðum og ofsaveðri á landi gangi hann nærri Honshu eða á land þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×