Heilbrigðistofnun Ameríkuríkja varar nú við því að kórónuveirufaraldurinn á svæðinu sýni engin merki þess að vera að hægja á sér.
Forstjóri stofnunarinnar, Carissa Etienne, segir að mikil útbreiðsla sjúkdómsins og undirliggjandi sjúkdómar valdi því að þrír af hverjum tíu íbúum svæðisins séu í mikilli hættu á að veikjast alvarlega, eða um 300 milljónir manna. Veiran sé nú í uppsveiflu í Bólívíu, Ekvador, Kólombíu og Perú og að í sumum mið-ameríkuríkjum sé vikuleg aukning nú meiri en nokkru sinni fyrr.
Heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó staðfestu í nótt að þar í landi hafi nú fleiri en 40 þúsund látið lífið af völdum Covid 19, en aðeins hafa fleiri látist í Bandaríkjunum, Brasilíu og Bretlandi.
Þrátt fyrir vöxt í fyrrnefndum ríkjum sagði Etienne að Chile, Argentína og Úrúgvæ hefðu náð góðum árangri í baráttunni við veiruna og þau væru á réttri leið. Þar hefðu einstaklingsbundnar smitvarnir á borð við handþvott og félagsforðun skipt sköpum.