Erlent

Pelosi segir at­vikið á hár­greiðslu­stofunni hafa verið gildru

Atli Ísleifsson skrifar
Nancy Pelosi á fundi í San Francisco í gær.
Nancy Pelosi á fundi í San Francisco í gær. AP

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir að hún hafi verið leidd í gildru í heimsókn sinni á hárgreiðslustofu í San Francisco þar sem myndir náðust af henni án þess að bera grímu í öryggismyndavélum stofunnar. Var um brot á sóttvarnareglum að ræða.

„Ég tek ábyrgð á að hafa treyst orðum þeirra á hárgreiðslustofunni. Það kemur í ljós að þetta var gildra,“ sagði Pelosi er hún ræddi við blaðamenn.

Pelosi hefur margoft gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að hafa neitað að bera grímu.

Pelosi segist margoft hafa sótt eSalon SF hárgreiðslustofuna í gegnum árin. Hún hafi fengið þau skilaboð að stofan gæti tekið á móti einum viðskiptavini í einu innandyra, en yfirvöld í San Francisco heimila nú starfsfólki hárgreiðslustofa að bjóða upp á þjónustu utandyra.

„Ég treysti því – og það kemur í ljós að þetta var gildra. Þannig að ég tek fulla ábyrgð á að hafa fallið í gildruna og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.“

Skjáskot úr öryggismyndavél hárgreiðslustofunnar sem sýnir Nancy Pelosi án grímu. Gríman er um hálsinn á henni.

Forseti fulltrúadeildarinnar sagði ennfremur að hún telji forsvarsmenn hárgreiðslustofunnar skulda sér afsökunarbeiðni vegna málsins.

„Við verðum að koma landinu okkar aftur á fætur og ég mun ekki láta þetta mál beina athyglinni frá því að rúmlega 185 þúsund manns hafa látist af völdum veirunnar.“

Trump tísti um málið þar sem hann sagði að verið væri að „rústa“ Pelosi fyrir það að hafa látið opna hárgreiðslustofu á meðan aðrar eru lokaðar. Sömuleiðis hafi hún ekki verið grímu þrátt fyrir að ítrekar prédíka að aðrir skuli geri það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×