Erlent

Fjörutíu dagar á sjó og þrjár neitanir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hluti hópsins bíður þess hér að færa sig af tankskipinu og yfir í björgunarskipið.
Hluti hópsins bíður þess hér að færa sig af tankskipinu og yfir í björgunarskipið. Mediterranea Saving Humans via AP

Hópur flóttafólks er nú kominn í land á Ítalíu eftir að hafa varið yfir 40 dögum á sjó. Danska skipinu sem flutti hópinn var meinað að leggjast að landi í þremur ríkjum.

Í frétt breska ríkisútvarpsins er greint frá því að áhöfn danska tankskipsins Maersk Etienne hafi tekið hópinn, sem telur 27 manns og þar af eina ófríska konu, eftir að bátur þeirra sökk stuttu eftir brottför frá norðurafríkulandinu Líbíu, 2. ágúst.

Samkvæmt fyrirtækinu sem gerir skipið út höfðu yfirvöld á Möltu óskað eftir því að skipið aðstoðaði við að koma fólkinu til bjargar. Því hafna stjórnvöld þar í landi hins vegar og segja björgunaraðgerðirnar hafa átt sér stað utan hafsögu Möltu. Skipinu var því neitað um að leggjast að bryggju á Möltu og hleypa fólkinu frá borði.

Ítalía og Líbía höfnuðu því einnig að taka við fólkinu. Áhöfn skipsins og flóttafólkið var örvæntingarfyllra eftir því sem leið á sjódvölina. Einn farþeganna kom skilaboðum til maltneskra fjölmiðla með það eina markmið að láta fjölskyldu sína vita að hann hefði ekki dáið í Miðjarðarhafinu.

Á síðustu dögunum áður en skipinu var leyft að leggjast að landi höfðu þrír flóttamannanna stokkið frá borði og reynt að synda í land. Þeim var fljótlega bjargað og komið aftur um borð í skipið af áhöfn Maersk Erienne.

Á föstudag var hópurinn færður í björgunarskip á vegum samtakanna Mediterrenea Saving Humans og kom til hafnar í Pozzallo á Sikiley í gær.

Mediterranea birti skilaboð á Twitter í gær þar sem málið var sagt eitt það skammarlegasta í siglingasögu Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×