Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), er kominn í sóttkví eftir að manneskja sem hann var í samskiptum við greindist með kórónuveiruna.
Ghebreyesus greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni seint í gærkvöldi og lagði áherslu á að hann væri ekki með nein einkenni Covid-19. Ghebreyesus býr í Genf í Sviss þar sem höfuðstöðvar WHO eru.
„Mér líður vel og er án einkenna en ég verð í sóttkví næstu daga, líkt og verkferlar WHO kveða á um, og mun vinna heima,“ sagði Ghebreyesus á Twitter.
I have been identified as a contact of someone who has tested positive for #COVID19. I am well and without symptoms but will self-quarantine over the coming days, in line with @WHO protocols, and work from home.
— Tedros Adhanom Ghebreyesus (@DrTedros) November 1, 2020
Þá lagði hann áherslu á að mikilvægi þess að allir fylgdu leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda þegar kæmi að faraldrinum.
„Þannig brjótum við smitkeðjurnar, bælum niður veiruna og verndum heilbrigðiskerfin,“ sagði Ghebreyesus.
Samkvæmt tölfræðiupplýsingum Johns Hokins-háskólans í Bandaríkjunum hafa nú 46 milljónir manna greinst með kórónuveiruna í heiminum öllum og 1,2 milljónir látist vegna Covid-19, sjúkdómsins sem veiran veldur.