Erlent

Lýsir ekki yfir neyðarástandi en gefur grímur

Samúel Karl Ólason skrifar
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, með grímu. Hann vill gefa öllum heimilum í Japan tvær svona grímur.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, með grímu. Hann vill gefa öllum heimilum í Japan tvær svona grímur. AP/Yoshitaka Sugawara

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, er andsnúinn því að lýsa yfir neyðarástandi þar í landi vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Þó áköll eftir því verði sífellt háværari hefur Abe staðið fast á sínu. Í dag hefur forsætisráðherrann orðið fyrir mikilli gagnrýni fyrir að gefa öllum heimilum Japan tvær andlitsgrímur.

Staðfestum smitum í Japan hefur fjölgað töluvert á undanförnum dögum. Samkvæmt frétt Reuters hafa sérfræðingar varað við því að landið sé að nálgast hættuástand og þá sérstaklega í Tókíó.

Rúmlega 2.500 hafa greinst með veiruna og 71 hefur dáið. Síðasta sólarhringinn greindust 97 ný tilfelli í Tókýó en þau hafa aldrei verið fleiri.

Sjálfur sagði Abe í gær að Japan héldi rétt svo velli gegn veirunni. Þrátt fyrir það hefur hann ekki viljað lýsa yfir neyðarástandi, sem gæfi yfirvöldum völd til þess að skikka fólk til að halda sig heima, loka skólum og grípa til annarra aðgerða.

Þess í stað tilkynnti Abe að öllum heimilum Japan yrði gefnar tvær andlitsgrímur sem hægt væri að þvo í þvotti. Þær verða sendar út í þar næstu viku og fyrst til svæða þar sem veiran hefur greinst.

Framtakið hefur verið harðlega gagnrýnt á samfélagsmiðlum í Japan og er sagt vera sóun á almannafé.

Sérfræðingaráð ríkisstjórnarinnar varaði við því í gær að heilbrigðiskerfi Japan gæti hrunið ef fjölgun smita í þéttbýli verði ekki stöðvuð. Ráðið ítrekaði að fólk þyrfti að stunda félagsforðun og sagði að grípa þyrfti til aðgerða til að styðja við bakið á heilbrigðiskerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×