Herinn lýsir þessum mótmælum þó á þann veg að verið sé að ýta undir hatur og fordóma gagnvart leiðtogum hersins og mótmælendur eru jafnvel sagðir vera að fremja landráð.
Eins og fram kemur í frétt BBC hafa hundruð þúsund íbúa Mjanmar tekið þátt í mótmælum vegna valdaránsins á undanförnum vikum.
Reuters segir að færri hafi tekið þátt í mótmælum í Mjanmar í dag, samhliða því að fjölmargir hermenn eru á götum borga landsins og á brynvörðum farartækjum.
Mótmælendur krefjast þess meðal annars að Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins, og öðrum kjörnum fulltrúum verði sleppt úr haldi. Suu Kyi hefur verið í haldi herforingjastjórnarinnar frá 1. febrúar þegar herinn framdi valdarán.
Sjá einnig: Beita skriðdrekum og byssukúlum í von um að bæla niður mótmælin
Herinn hefur haldið því fram að umfangsmikið kosningasvindl hafi átt sér stað í kosningum sem haldnar voru í nóvember. Engar sannanir varðandi þær ásakanir hafa þó verið opinberaðar og kosningastjórn landsins hefur hafnað þeim.
Herinn stýrði Mjanmar í marga áratugi en árið 2011 fóru forsvarsmenn hersins að draga sig frá stjórnmálum. Suu Kyi varði nærri því fimmtán árum í stofufangelsi vegna viðleitni hennar til að koma hernum frá völdum.