Erlent

Stormy Dani­els fær ekki að á­frýja til Hæsta­réttar

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump og Stormy Daniels.
Donald Trump og Stormy Daniels. Vísir/Getty

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði beiðni klámstjörnunnar um áfrýjun á frávísunarúrskurði í meiðyrðamáli hennar gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Beiðninni var hafnað án athugasemda.

Daniels höfðaði málið gegn forsetanum fyrrverandi árið 2018 eftir að hann sagði hana mögulega hafa logið til um hótanir frá ónefndum manni í tengslum við samband hennar og Trump, en hún greindi frá því árið 2011 að þau hefðu átt í ástarsambandi árið 2006. Í kjölfarið hafi henni og dóttur hennar verið hótað ofbeldi.

Hún segir þennan ónefnda mann hafa nálgast sig á bílastæði og sagt henni að „láta Trump vera“, en á þeim tíma hafi hún verið að íhuga að greina frá sambandi þeirra. Árið 2018 birti hún skissu af manninum sem hún sagði hafa nálgast sig á bílastæðinu sjö árum áður.

„Skissa mörgum árum síðar af manni sem er ekki til,“ skrifaði Trump á Twitter í kjölfarið og sagði allt málið vera svikamyllu.

Áfrýjunardómstóll í Kaliforníu-ríki sagði ummæli Trump vera skoðun og því nytu þau verndar tjáningarfrelsisins. Því væru ekki efni til þess að taka málið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×