Hjónin hafa ekki fengið öryggisgæslu á vegum bresku konungsfjölskyldunnar undanfarin misseri og í nýlegu viðtali lýsti Hinrik áhyggjum af öryggi fjölskyldu sinnar.
Slúðurvefurinn TMZ hefur eftir heimildarmönnum sínum innan lögreglunnar að sami karlmaður hafi brotist inn í hús hertogahjónanna í Montecito í Kaliforníu, fyrst á aðfangadagskvöld og svo aftur á öðrum degi jóla. Maðurinn er sagður hafa ekið alla leiðina frá Ohio en ekki liggi fyrir hvað hann vildi hjónunum né hvort að þau hafi verið heima þegar hann mætti óboðinn heim til þeirra.
Hinrik, sem gengur undir gælunafninu „Harry“, sagði í viðtali við spjallþáttadrottninguna Opruh Winfrey á dögunum að þegar hann og Markle létu af formlegum störfum fyrir konungsfjölskylduna og fluttu til Norður-Ameríku hafi þau verið svipt lífvarðasveit sinni. Benti prinsinn á að þrátt fyrir að þau komi ekki lengur fram fyrir hönd konungsfjölskyldunnar steðji ýmsar ógnir enn að þeim.
Viðtalið við hjónin vakti mikla athygli innan og utan Bretlands. Í því lýstu þau meðal annars rasisma innan bresku konungshallarinnar. Hinrik sagði að Karl Bretaprins, faðir sinn, hafi hætt að svara honum í síma eftir að hann og Markle ákváðu að láta af opinberum störfum.