Þetta kemur fram í yfirlýsngu samtakanna sem byggir á viðtölum við fjölskyldur sem hafa flúið svæðið. Í skýrslunni segir að ástandið í héraðinu Cabo Delgado hafi farið mjög versnandi á undanförnu ári. Vígamenn geri sífellt fleiri árásir á þorp í héraðinu og fregnir hafi borist af grimmilegum morðum á börnum.
Ein 28 ára gömul kona sem rætt var við sagði að tólf ára gamalt barn hennar hefði verið afhöfðað skammt frá þar sem hún var í felum með þrjú önnur börn sín.
Það segir hún hafa gerst þegar vígamenn réðust á þorp hennar. Þeir hafi náð syni hennar þegar þau voru á flótta og myrt hann.
Önnur kona segir vígamenn hafa ráðist á þorp hennar og myrt ellefu ára gamlan son hennar. Þá hafi hún og önnur börn hennar flúið til þorps föður hennar en nokkrum dögum síðar hafi vígamennirnir einnig ráðist á það.
Í frétt BBC segir að 2.500 manns hafi fallið og um 700 þúsund hafi flúið heimili sín frá því vígamenn hófu árásir sínar í héraðinu árið 2017. Um er að ræða hryðjuverkasamtökin al-Shabab sem hafa lýst yfir hollustu við Íslamska ríkið. Það eru þó ekki samtökin í Sómalíu sem bera sama nafn og tengjast al-Qaeda.
Chance Briggs, sem stýrir starfsemi Save the Children í Mósambík, segir starfsmenn samtakanna hafa brostið í grát vegna frásagna þeirra sem rætt var við. Þessi grimmilegu morð barna séu einstaklega ógeðfelldar.
Hann segir mikla þörf á aðstoð fyrir fólk á svæðinu. Um það bil milljón manna standi frammi fyrir hungursneyði vegna átaka á svæðinu.