Eftirlitshópurinn Hjálparsamtök pólitískra fanga (AAPP) segir að 82 hafi látist í mótmælum gegn valdaráni hersins í bænum Bago, um 90 kílómetra norðaustur af Yangon. Skothríð hersins hófst fyrir dögun á föstudag og stóð fram á síðdegi, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir innlendri fréttaveitu í Búrma. Margir íbúar Bago eru sagðir hafa flúið.
„Þetta er eins og þjóðarmorð. Þeir skjóta á hvern skugga,“ hefur Myanmar Now-fréttaveitan eftir Ye Htut sem hún segir skipuleggjanda mótmæla um blóðbaðið í Bago.
Samkvæmt tölum AAPP hafa 618 mótmælendur verið drepnir frá því að herinn rændi völdum 1. febrúar. Herinn hafnar þeim tölum. Hann hefur ekki tjáð sig um blóðbaðið í Bago.