Útlit er fyrir að flokkur Lopez Obrador muni ná milli 190 og 203 þingsætum af þeim fimm hundruð sem í boði eru. Flokkurinn var fyrir með hreinan meirihluta, eða 256 þingsæti.
Kosningabaráttan hefur farið fram í skugga morða á fjölda frambjóðendum og embættismönnum, en auk þess að kjósa sér nýtt þing var kosið um fimmtán af 31 ríkisstjóra í landinu, auk nýs ríkisstjóra í höfuðborginni Mexíkóborg. Þá var sömuleiðis kosið um nærri tvö þúsund borgarstjóra.
Litið var á kosningar sunnudagsins sem mælingu á vinsældir forsetans Lopez Obrabor og um tveggja ára valdatíð hans. Stjórnartíð hans hefur einkennst af baráttunni við faraldur kórónuveirunnar og öldu ofbeldis í landinu sem tengist glímu stjórnvalda við eiturlyfjahringi og sömuleiðis innbyrðis átök slíkra hringja.
Kosningabaráttan hófst í september á síðasta ári og hafa tugir stjórnmálamanna verið ráðnir af dögum síðan. Á sjálfum kjördegi voru fimm starfsmenn kjörstaða drepnir í sunnanverðu landinu og þá fundust tvö höfuð og aðrir líkamshlutar á þremur kjörstöðum í landamærabænum Tijuana í norðvestanverðu landinu.