Samkvæmt yfirvöldum má rekja mörg dauðsfallanna til hitans.
Í gær féll hitamet í landinu þriðja daginn í röð, í Lytton í Bresku-Kólumbíu. Hitinn mældist 49,5 gráður á selsíus en hafði fram til þessa aldrei farið yfir 45 gráður.
Sérfræðingar segja loftslagsbreytingar munu auka fjölda öfgafullra veðrabreytinga á borð við miklar hitabylgjur. Hins vegar er ómögulegt að staðhæfa að rekja megi einstaka viðburði til loftslagsbreytinga.
Að sögn lögrelgunnar í Vancouver hefur hitinn líklega átt þátt í 65 dauðsföllum. „Við höfum aldrei upplifað hita á borð við þennan í Vancouver og því miður hafa tugir látist af völdum hans,“ hefur BBC eftir lögreglustjóranum Steve Addison.
Íbúar í Lytton segja nærri ómögulegt að fara út fyrir hússins dyr. Meghan Fandrich sagði í samtali við Globe & Mail að íbúar væru vanir hita en 47 gráður væru allt annað en 30 gráður.
Mörg heimili í Bresku-Kólumbíu eru ekki búin loftkælingu og er unnið að því að koma upp „kælingarmiðstöðvum“ fyrir íbúa á Vancouver-svæðinu. Þá hefur lögreglumönnum verið fjölgað en mikið álag er á viðbragðsaðilum vegna hitans.