Frá þessu greinir AP-fréttastofan og segir að tugir heimila í bænum Atami hafi orðið undir skriðunni. Mikið hefur rignt á svæðinu í vikunni, sem valdið hefur því að jarðvegur losnar og hættan á skriðuföllum verður meiri og alvarlegri.
AP hefur eftir Takamichi Sugiyama, talsmanni Shizuoka-héraðs, að tilkynningar um rýmingu vegna skriðuhættu hefðu verið sendar á íbúa stórs svæðis. Hann sagði einnig að tala þeirra sem saknað er gæti farið hækkandi fram eftir degi.
Myndefni af skriðunum hefur farið um samfélagsmiðla, en í því má sjá svarta aurskriðuna renna niður fjallshlíðina fyrir ofan bæinn áður en hún lendir á húsum, kremur þau og sópar burt bílum sem á vegi hennar verða.