Erlent

Hvít­rúss­neskur stjórnar­and­stæðingur finnst hengdur í al­mennings­garði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vitaly Shishov hafði verið varaður við því að líf hans væri í hættu.
Vitaly Shishov hafði verið varaður við því að líf hans væri í hættu. Twitter/Tadeusz Gizcan

Maður sem fór fyrir hóp sem aðstoðar fólk við að hefja nýtt líf eftir að hafa flúið Belarús (Hvíta-Rússland) hefur fundist látinn í almenningsgarði í Kíev í Úkraínu. 

Samkvæmt erlendum fréttum fannst lík Vitaly Shishov hangandi í tré og lögregla rannsakar nú hvort hann hafi verið myrtur og morðið sviðsett sem sjálfsmorð.

Shishov yfirgaf heimili sitt á mánudagsmorgun og er talinn hafa farið út að hlaupa. Hann virðist hafa hringt nokkur símtöl en lagt á þegar svarað var. Lögregla hefur síma Shishov undir höndum.

Samkvæmt hvítrússneska blaðamanninum Tadeusz Gizcan segja vinir Shishov að honum hafi verið veitt eftirför á síðustu misserum. Hann neyddist til að flýja Belarús síðasta haust eftir að hafa tekið þátt í mótmælum í Gomel.

Shisov var framkvæmdastjóri nokkurs konar áfangahúss í Úkraínu, þar sem Hvítrússar geta fengið stuðning við að hefja nýtt líf eftir að hafa yfirgefið heimalandið.

Fjöldi fólks hefur flúið Belarús í kjölfar afar umdeildra forsetakosninga í landinu í ágúst í fyrra.

Meðal þeirra er spretthlauparinn Krystina Timanovskaya, sem hefur fengið dvalarleyfi í Póllandi eftir að hafa sagst óttast um öryggi sitt í kjölfar þess að hafa gagnrýnt þjálfara Belarús á Ólympíuleikunum sem nú standa yfir í Tókýó.

Þá vakti það heimsathygli þegar blaðamaðurinn Roman Protasevich var handtekinn eftir að flugvél sem hann ferðaðist með var neydd til að lenda.


Tengdar fréttir

Hvítrússneskur spretthlaupari neitar að láta senda sig heim

Krystsina Tsimanouskaya var tekin úr hvítrússneska ólympíuliðinu fyrir að gagnrýna þjálfara sína. Hún hefur óskað eftir aðstoð Alþjóðaólympíunefndarinnar enda segir hún að stjórnvöld séu að neyða hana til að fara til Hvíta-Rússlands.

Handtekni blaðamaðurinn birtist opinberlega

Hvítrússneski blaðamaðurinn Roman Prótasevits sem var handtekinn um borð í flugvél Ryanair kom fram á blaðamannafundi í fylgd með embættismönnum í dag. Þar neitaði Prótasevits að hafa verið beittur ofbeldi í haldi yfirvalda og lýsti iðrun vegna meintra glæpa sinna. Stjórnarandstaðan telur að hann hafi verið þvingaður til að koma fram opinberlega.

Banna hvítrússneskar þotur í Evrópu

Evrópusambandið hefur ákveðið að banna hvítrússneskum flugvélum að fljúga í lofthelgi aðildarríkja sinna og að lenda á evrópskum flugvöllum. Evrópsk flugfélög eru áfram hvött til þess að forðast í lengstu lög að fljúga í gegnum lofthelgi Hvíta-Rússlands.

Sögðu áhöfninni að lenda áður en hótunin barst

Flugumferðarstjórar í Minsk sögðu áhöfn flugvélar RyanAir að snúa flugvélinni við og lenda í borginni vegna meintrar sprengjuhótunar, áður en hótunin sjálf barst. Um hálftíma eftir að flugstjóranum var sagt að snúa flugvélinni barst tölvupóstur til nokkurra flugvalla þar sem hótað var að sprengja flugvélina í loft upp yfir Vilníus.

Óásættanlegt framferði og brot á alþjóðalögum

Atlantshafsbandalagið krafðist þess í dag að hvítrússnesku stjórnarandstæðingarnir sem voru handteknir eftir að flugi þeirra með RyanAir var stýrt af leið og lent í Minsk verði leystir úr haldi. Utanríkisráðherra segir málið með ólíkindum.

„Ég veit að dauðadómur bíður mín í Hvíta-Rússlandi“

Farþegar í flugvél RyanAir sem snúið var af leið og lent í Minsk í Hvíta-Rússlandi um helgina segja blaðamanninn og aðgerðasinnan Roman Protasevíts hafa augljóslega verið hræddan, þegar flugstjóri flugvélarinnar tilkynnti að henni yrði lent í Minsk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×