Erlent

Glataðir boltar og léleg logsuða orsök mannskæðs brúarhruns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi slyssins. Þessi kafli brúarinnar gaf sig þegar lestin fór yfir hann.
Frá vettvangi slyssins. Þessi kafli brúarinnar gaf sig þegar lestin fór yfir hann. Hector Vivas/Getty Images)

Sérfræðingar sem rannsaka mannskætt lestarslys sem varð í Mexíkóborg í Mexíkó í maí telja að glataðir boltar og léleg logsuða hafi á verið meðal orsaka þess að slysið varð. 26 létust þegar brú hrundi í þann mund sem lest ók á henni.

Nokkrir lestarvagnar steyptust til jarðar og að minnsta kosti ein bifreið sem var undir brúnni á umferðargötu kramdist þegar einn vagnanna lenti á henni.

Norskir sérfræðingar voru fengnir til að vinna skýrslu um slysið og var hluti skýrslu þeirra gefin út í dag. Þar komast þeir að því að boltar sem áttu að styðja við stóran hluta brúarinnar var hvergi að finna. Varð það til þess að stoðir brúarinnar bognuðu undan álaginu.

Þá hafi sprungur verið farnar að myndast í brúnni auk þess sem að jarðskjálfti sem varð árið 2017 í borginni hjálpaði ekki til. Þá fundu skýrsluhöfundar merki um lélega logsuðuvinnu. Áður höfðu norsku sérfræðingarnar bent á að minnst sex vankantar hafi verið á smíði brúarinnar. Enn á eftir að gefa út síðasta hluta skýrslunnar.

Vinna er þegar hafin við að koma lestarlínunni sem brúin var hluti aftur í gagnið en verktakafyrirtækið sem byggði neðanjarðarlestarkerfið gefur gefið út að það muni byggja ný brú án þess að ríkið þurfi að greiða fyrir framkvæmdina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×