Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að sérfræðingateymi á vegum stofnunarinnar hafi greitt atkvæði með því að mæla með bólusetningu barna í aldurshópnum.
Bóluefni Pfizer hafði áður verið samþykkt fyrir fullorðna, og börn niður í allt að tólf ára aldur. Um 28 milljónir barna í Bandaríkjunum eru á aldrinum fimm til ellefu.
Endanleg ákvörðun um bólusetningu hópsins liggur þó ekki fyrir, en hún er háð frekara samþykki innan FDA, auk samþykkis sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC). Búist er við því að slíkt samþykki ætti að liggja fyrir 2. nóvember næstkomandi og að bólusetningar barna í aldurshópnum geti hafist daginn eftir.
Börnin fá þriðjungsskammt af bóluefni
Sérfræðingateymi FDA byggði ákvörðun sína meðal annars á því að kostir bólusetningar barna niður í fimm ára kæmu til með að vega þyngra en mögulegar aukaverkanir.
Börnum í aldurshópnum verður gefið efnið í skammtastærð sem samsvarar þriðjungi af þeim skammti sem fullorðnir fá af bóluefninu.
Samkvæmt tölum hins opinbera í Bandaríkjunum hafa hátt í 740 þúsund manns dáið úr Covid-19 þar í landi. Þar af eru 160 börn á aldrinum fimm til ellefu ára.