Í drögum að samkomulagi sem voru kynnt á miðvikudag var upphaflega talað um að ríki skyldu „hraða því að taka kol og niðugreiðslur á jarðefnaeldsneyti úr umferð“.
Nýjustu drögin sem voru birt í dag veikja það orðalag verulega. Nú er aðeins talað um að ríki skuli hraða því að „taka úr umferð óhefta kolaorku og óskilvirkar niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti“, að sögn AP-fréttastofunnar.
Öll 197 aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna þurfa að samþykkja lokasamkomulagið samhljóða, þar á meðal stórtækir framleiðendur jarðefnaeldsneytis eins og Sádi-Arabía, Rússland og Ástralía sem hafa lengi dregið lappirnar í loftslagsmálum.
Draga þarf hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda strax til þess að halda á lífi markmiðum Parísarsamkomulagsins um að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C , eða í versta falli 2°C, á þessari öld til þess að forðast alvarlegustu afleiðingar loftslagsbreytinga.
Miðað við núverandi markmið ríkja heims stefnir í að hlýnun nái 2,4°C. Með slíkri hlýnun verða hitabylgjur, þurrkar og flóð enn tíðari og skæðari en þegar er orðið og sjávarstaða hækkar enn frekar sem ógna milljónum manna sem búa á strandsvæðum og láglendi.
Bruni á kolum losar enn meira kolefni út í lofthjúpinn en olía eða gas.
Holur hljómur í loforðum
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði AP í gær að markmið Parísarsamkomulagsins væru í „öndunarvél“. Loforð um að draga úr losun sé merkingarlaus á meðan ríki heims halda áfram að fjárfesta í jarðefnaeldsneyti.
„Það er holur hljómur í loforðum þegar jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn fær ennþá billjónir í niðurgreiðslur,“ sagði Guterres.
Ráðstefnunni lýkur formlega klukkan 18:00 að íslenskum tíma í kvöld. Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands sem fer fyrir hópi háttsettra stjórnmálaleiðtoga, sakaði stórlosendur um að skemma fyrir viðræðunum. Fulltrúa Rússlands og Sádi-Arabíu berjist með kjafti og klóm gegn því að talað verði um að hætta notkun kola eða draga úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.