Versti faraldur fuglaflensu í sjö ár gengur nú yfir Bandaríkin og hafa bandarískir alifuglabændur þurft að aflífa fleiri milljónir fugla.
Nú hefur H5N1 afbrigði veirunnar greinst í manni í fyrsta sinn þar í landi. Ónefndur fangi í Colorado smitaðist af veirunni þegar hann var í vinnu við að aflífa sýkta fugla á býli, að því er segir í tilkynningu Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna
Þar segir jafnframt að maðurinn sé að mestu einkennalaus fyrir utan að finna fyrir þreytu.
Þá sé hann sá eini af 2.500 manns, sem undirgengist hafa sýnatöku vegna útsetningar, sem greinst hefur jákvæður. Því sé ekki tilefni til að hækki viðbúnaðarmat vegna fuglaflensu.
Afbrigðið útbreitt hér á landi
Fuglaflensa hefur nú greinst í að minnsta kosti tólf villtum fuglum víða um Ísland og ljóst er að þessi skæði sjúkdómur er nú orðinn útbreiddur og smithætta fyrir alifugla er mikil. Viðbúnaðarstig verður hækkað í rautt þegar sjúkdómurinn greinist í alifuglum og þurfa bændur að gæta sín vel.
Birgitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifugla, segir þó að fólk þurfi ekki að hafa teljandi áhyggjur af því að smitast af veirunni.
„Það eru engar vísbendingar um að fólk smitist af þessum veirum. Það eru einhver algjör undantekningartilfelli þekkt þar sem fólk hefur smitast og fengið væg einkenni, sem hefur haft mikla umgengni við sýkta fuglahópa, en almennir borgarar þurfa ekki að óttast neitt eins og er,“ sagði hún í samtali við Vísi á dögunum.