Rannsóknarnefnd danska þingsins um ákvörðunina skilaði skýrslu sinni í gær þar sem fram kom að málflutningur forsætisráðherrans á fréttamannafundi í 4. nóvember 2020 hafi verið villandi þegar hún tilkynnti að lóga ætti öllum minkum í landinu. Var það gert til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.
Það var einnig niðurstaða nefndarinnar að Barbara Bertelsen, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og einn nánasti samstarfsmaður Frederiksen, hafi gerst brotleg við lög og reglur embættismanna í málinu og að brotin séu svo alvarleg að grunnur sé fyrir ákæru. Þá er talið að fjöldi annarra embættismanna hafi einnig brotið reglur og lög í málinu og sömuleiðis hafi embættisfærslur manna í matvælaráðuneytinu einnig verið ámælisverðar.
Ákvörðun danskra stjórnvalda um að lóga öllum minkum í landinu, um sautján milljónir dýra, vakti gríðarlega athygli og olli miklu fjaðrafoki þegar ljóst var að ákvörðunin átti sér enga stoð í lögum. Rannsóknarnefndin sagði orð Frederiksen þann 4. nóvember 2020 hafa verið villandi, en var það niðurstaðan að það hafi ekki verið af ásetningi.
„Afsakið. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hafi verið að vera í ykkar sporum. Þið misstuð ævistarf ykkar, og ég biðst innilegrar afsökunar á þeim skapraunum og sorg sem þetta færði ykkur. Þess vegna vil ég biðja ykkur afsökunar,“ sagði Frederiksen á fréttamannafundi í morgun. Hún sagði ákvörðunina þó hafa verið nauðsynlega, þar sem ábyrgð Danmerkur gagnvart umheiminum hafi verið mikil.