Til stóð að gera aðra tilraun til að skjóta geimfarinu á loft í gær en hætt var við þegar leki greindist á einum af eldsneytistönkum eldflaugarinnar og ekki tókst að stöðva hann. Síðastliðinn mánudag var hætt við fyrstu tilraunina vegna þess að ekki gekk að lækka hitastig eins af fjórum aðalhreyflum SLS-eldflaugarinnar eins og til þarf fyrir geimskot.
Sjá einnig: Hættu við aðra tilraun vegna leka
Næsta tímabil þegar staða jarðarinnar og tunglsins er á þann veg að hægt er að skjóta geimfarinu af stað er frá 19. september til 4. október. Skotglugginn svokallaði mun opnast fjórtán sinnum á því tímabili.

SpaceFlightNow segir að til standi að senda nýja áhöfn til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar þann 3. október og því er óljóst hvort Artemis-1 geti verið skotið á loft á þessu tímabili.
Eftir 4. október verður ekki hægt að skjóta Artemis-1 af stað fyrr en 17. október. Yfirlit yfir hvenær hægt er að skjóta geimfarinu til tunglsins má sjá hér á vef NASA.
Í yfirlýsingu á vef NASA segir að næstu daga verði lekinn skoðaður nánar og ákvörðun um hvenær hægt verði að reyna aftur tekin í kjölfar þess.
#Artemis Update: The team continues to troubleshoot, and plans to return with a variety of options early next week. We are standing down on any launch attempts through the current launch period, which ends Tuesday.
— NASA (@NASA) September 3, 2022
See https://t.co/dMVnvEQcfC for more information. pic.twitter.com/cCefwG9FO0
Fyrsta geimskotið af mörgum
Þetta geimskot kallast Artemis-1. Um borð í Orion-geimfarinu verður mikið af vísindabúnaði sem vísindamenn vonast til að geta notað við undirbúning mannaðra geimferða framtíðarinnar.
Auk vísindabúnaðar verða þrjár gínur um borð. Þær kallast Commander Moonikin Campos, Helga og Zohar. Campos verður búinn fjölmörgum skynjurum og íklæddur sama búning og geimfarar munu vera í á næstu árum.

Umborð eru einnig smáir gervihnettir sem verða meðal annars notaðir til að leita að vatni á tunglinu og kortleggja yfirborð þess.
Í næsta geimskoti áætlunarinnar, Artemis-2 verður farin svipuð ferð en þá verða menn um borð. Í Artemis-3 verður svo reynt að lenda mönnum á yfirborði og verður það í fyrsta sinn sem menn fara til tunglsins frá Appollo-17 árið 1972. Vonast er til þess að Artemis-3 fari á loft árið 2025 eða 2026.
Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.