Norðurkóreumenn hafa sjö sinnum skotið eldflaugum á loft í kringum nýlegar heræfingar Bandaríkjamanna og Suðurkóreumanna. Norðamenn líta á slíkar æfinar sem undirbúning fyrir innrás.
Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu héldu því fram í dag að eldflaugarskotin hafi verið liður í hermun á kjarnavopnaárásum. Herinn hafi komið gervikjarnaoddum fyrir í eldflaugunum.
Hermunin hafi verið á árásum á herstöðvar, hafnir og flugvelli sunnan landamæranna. Æfingarnar hafi verið viðvörun fyrir bandarísk og suðurkóresk stjórnvöld og þær sýni að Norðurkóreumenn geti gereytt skotmörkum hvar sem er og hvenær sem er.
Tilkynningin var send út á sjötugasta og sjöunda afmælisdegi Verkamannaflokks Norður-Kóreu. AP-fréttastofan segir að hún hafi verið liður í að styrkja ímynd Kim sem sterks leiðtoga á sama tíma og landið glímir við erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins.
Norðurkóreumenn eru nú sagðir undirbúa fyrstu tilraunir sínar með kjarnavopn í fimm ár. Þeir gætu einnig reynt að prófa skammdræga kjarnaodda sem hægt er að nota til að skjóta stýriflaugum á vígvelli, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Kim lét breyta lögum um notkun kjarnavopna í síðustu viku. Nú má hann nota kjarnavopn að fyrrabragði en samkvæmt eldri lögum mátti aðeins beita þeim til að verjast árás.