Þann 15. apríl árið 1912 sökk Titanic eftir að hafa rekist í ísjaka í jómfrúarferð sinni. Rúmum 73 árum síðar, þann 1. september árið 1985, tókst WHOI, ásamt frönsku hafrannsóknarstofnuninni Institut français de recherche pour l’exploitation de la mer að finna flakið á botni Atlantshafsins. Ári síðar tók WHOI svo upp myndefnið sem birt var í gær.
Myndbandið sem um ræðir má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:
„Ég þurfti að fá tíma til að hugsa“
Robert Ballard, sem fór fyrir leiðangrinum árið 1985, bjóst ekki við því að fundurinn myndi hafa áhrif á sig. Hann var ekki sérstakur aðdáandi skipsins þar sem herinn átti hug hans allan. En þegar skipsflakið fannst klukkan 2 um nóttina var honum og teyminu hans ljóst að skipið sökk um þetta leyti sólarhringsins í apríl árið 1912.
„Við í rauninni hættum því sem við vorum að gera og tókum tækið upp. Ég þurfti að fá tíma til að hugsa og sagði „ég ætla að fara út og ná mér“ og allir eltu mig. Við héldum stutta minningarathöfn fyrir öll þau sem létu lífið,“ segir Ballard um fundinn í samtali við AP.
Hann líkti því að vera þarna úti á hafi við það að vera á staðnum þar sem orrustan við Gettysburg fór fram.
Fundurinn gerði Cameron agndofa
Titanic er í dag eitt þekktasta skip allra tíma. Eflaust ber leikstjórinn James Cameron nokkra ábyrgð á gífurlegri frægð skipsins en óskarsverðlaunakvikmynd hans um það kom út árið 1998.
25 ár eru liðin síðan Leonardo DiCaprio og Kate Winslet heilluðu heimsbyggðina í hlutverkum sínum sem Jack og Rose. Það er einmitt í tilefni þess sem WHOI birtir myndefnið sem tekið var upp árið 1986. Kvikmyndin hefur því verið endurútgefin í 25 ára afmælisútgáfu sem er í betri gæðum og í þrívídd.
Sjálfur var Cameron agndofa þegar fjarstýrðu farartækin fundu skipsflakið. „Með því að gefa út þetta myndefni er WHOI að hjálpa til við að segja mikilvægan hluta af sögu sem spannar kynslóðir,“ segir leikstjórinn í yfirlýsingu.