„Herafli rússneska sambandsríkisins mun bregðast við öllum ögrunum Úkraínu með viðeigandi hætti,“ sagði í yfirlýsingu Varnarmálaráðuneytisins.
Embættismenn í Moldóvu segja þetta þvætting en þeir hafa um nokkuð skeið varað við því að Rússar hafi ætlað að framkvæma valdarán í ríkinu.
BBC hefur eftir Valeriu Mija, innanríkisráðherra Moldóvu, að yfirlýsing Varnarmálaráðuneytis Rússlands sé liður í blönduðum hernaði gegn Moldóvu.
Innrás Rússa í Úkraínu hefur reynt mjög á Moldóvu, sem er eitt fátækasta ríki Evrópu og á landamæri að Rúmeníu og Úkraínu. Moldóva hlaut á síðasta ári stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu.
Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússlandi hafa frá árinu 1992 farið með völd í einu héraði Moldóvu sem kallast Transnistría. Þetta hérað er á landamærum Moldóvu og Úkraínu og þegar Rússar réðust upprunalega inn í Úkraínu í fyrra var útlit fyrir að eitt að markmiðum þeirra væri að tryggja landbrú til Transnistríu, þar sem Rússar hafa um árabilið verið með nokkur hundruð hermenn.
Sjá einnig: Varar við að Rússar hyggi á valdarán
Í frétt Reuters er vitnað í rússneska ríkismiðla þar sem því er haldið fram að ráðamenn á Vesturlöndum hafi skipað ríkisstjórn Moldóvu að slíta á öll samskipti við yfirvöld í Transnistríu. Ríkisstjórn Moldóvu hefur kallað eftir ró en segist tilbúin til að bregðast við öllum aðgerðum Rússa.