Bandarísk yfirvöld ákváðu að ábyrgjast allar innistæður í Silicon Valley Bank og Signature Bank sem fóru í þrot í síðustu viku. Hlutabréf í fjármálastofnunum hefur tekið dýfu um allan heim í kjölfarið. Joe Biden Bandaríkjaforseti reyndi að róa markaði og almenning í dag með því að segja að stjórn hans gerði allt sem í hennar valdi stæði til þess að tryggja stöðugleika.
Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir fátt benda til þess kerfislægur vandi hafi orðið bönkunum að falli. Þess í stað hafi þeir veðjað djarft á skuldabréf. Verð þeirra hafi lækkað mjög þegar vextir fóru hækkandi. Einnig hafi slök áhættustýring í kjölfar tilslakana á reglugerð fyrir nokkrum árum hafi átt sinn þátt.
„Það er einhver óróleiki en það er svo sem ekki margt sem bendir til þess að þetta sé einhver kerfislægur vandi eða að þetta séu margir bankar sem séu í sambærilegri stöðu,“ sagði Gylfi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Önnur fjármálakreppa sé ekki í kortunum þrátt fyrir að óróleiki ríki á mörkuðum. Það taki tíma fyrir rykið að setjast aftur.
„Það kannski sýnir okkur að traust á kerfinu er ekki komið aftur þó að það séu komin fimmtán ár frá því að síðasta hrun dundi yfir. Þannig að það er ekkert skrýtið að almenningur og fjárfestar hafi varann á, brenndir af reynslu fyrri ára. Auðvitað eiga menn að hafa varann á því það er nú oft það sem bjargar mönnum frá því að koma sér í vandræði,“ sagði Gylfi.