Kirby benti meðal annars á að stjórnvöld í Kína hefðu vikið sér hjá því að gagnrýna innrás Rússa í Úkraínu og haldið áfram að kaupa olíu af Rússum á sama tíma og önnur ríki hefðu ráðist í umfangsmiklar refsiaðgerðir til að fylla ekki stríðskistur þeirra.
Þá ætu Kínverjar upp áróður Rússa.
Xi Jinping, forseti Kína, er farinn frá Moskvu en hann ítrekaði í gær þá afstöðu Kínverja að þeir væru hlutlausir og vildu leggja sitt af mörkum í þágu friðar. Á sama tíma lagði hann þó einnig áherslu á gott og náið samband sitt við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.
Xi hefur boðið Pútín að heimsækja Kína síðar á þessu ári.
Á sama tíma og Xi og Pútín funduðu í Moskvu heimsótti Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan, Vólódímir Selenskí Úkraínuforseta. Kishida fór meðal annars um Bucha og vottaði fórnarlömbum hroðaverka Rússa virðingu sína í kirkju í bænum.
Fordæmdi Kishida grimmd innrásarhersins.
Erlendir miðlar fjölluðu um mögulegt símtal milli Xi Jinping og Selenskí í aðdraganda heimsóknar fyrrnefnda til Moskvu. Var Xi sagður ætla að ræða við Selenskí eftir heimsóknina til Rússlands en engar frekari fregnir hafa borist af viðræðum milli leiðtoganna.