Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir lögreglustjóranum Greg Capers að Francisco Oropesa hafi verið handtekinn á heimili í bænum Cut and Shoot þar sem hann hafði falið sig undir þvotti eftir að lögregla kom á staðinn.
Lögregla sakar manninn um að hafa skotið fimm nágranna sína í kjölfar deilna sem blossuðu upp eftir að Oropesa hafði hafnað óskum nágranna sinna að hætta að æfa sig að skjóta úr AR-15, hálfsjálfvirkum riffli.

Hin látnu voru öll frá Hondúras –28 ára kona, 21 árs kona, 31 árs kona, átján ára piltur og níu ára drengur.
Capers segir að lögregla hafi komist á snoðir um Oropesa eftir að ábending barst frá almenningi til alríkislögreglunnar. Hann hafi verið handtekinn einungis um klukkutíma eftir að ábendingin barst. Fulltrúar á vegum fjölda stofnana höfðu þá þegar tekið þátt í leitinni að hinum grunaða í um fjóra sólarhringa, meðal annars í Mexíkó.
Yfirvöld höfðu þá boðið 80 þúsund bandaríkjadala, um ellefu milljónir króna, fyrir upplýsingar sem myndu leiða til handtöku í málinu. Oropesa var handtekinn í húsi í um sextán kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem skotárásin var framin.
Capers segir að rannsókn sé nú hafin á hvernig maðurinn hafi komist yfir vopnið sem notað var í árásinni. Enginn annar hafi enn verið handtekinn en verið er að yfirheyra fólk sem einnig var í húsinu þar sem maðurinn var handtekinn.