Tilkynning um breytinguna birtist á vef Matvælaráðuneytisins í gær. Kemur þar fram að í formlegu áminningarbréfi frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, frá 10. maí síðastliðnum hafi stofnunin lýst þeirri afstöðu að Ísland hafi brotið gegn ákvæðum EES samningsins með setningu sérreglna um málefnið.
„Þessi starfsemi fellur þá undir reglugerð sem heitir reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Þá þurfa allir þeir sem halda slíkar hryssur að fá starfsleyfi fyrir slíkri starfsemi og sá sem tekur blóð úr þeim þarf að sækja um leyfi til dýratilrauna,“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun.
Uppfylla þurfi önnur skilyrði með nýju reglugerðinni.
„Þessi reglugerð er mjög nákvæm og þær reglur sem gilda um dýratilraunir eru mjög strangar og það gætu verið viðbótarkröfur sem koma við það sem er samkvæmt núverandi reglugerð.“
Þetta tímabil, sem lýkur í október, verður klárað samkvæmt þeirri reglugerð sem þegar er í gildi en sú nýja tekur gildi 1. nóvember.
„Það þarf að fara ofan í saumana á því hvaða skilyrði eru það sem þarf að uppfylla við notkun dýra sem notuð eru í tilraunum. Í fyrsta lagi þarf að uppfylla ströng skilyrði um fjölda dýra. Hvað þarf mörg dýr að lágmarki til að gera tilraun? Sá massi af dýrum sem verið hefur hér á Íslandi að taka úr þúsundum hryssna. Það mun aldrei ganga upp þegar þetta fellur undir dýratilraun,“ segir Sigurborg.
Þannig að það verða færri hryssur sem tekið verður blóð úr á hverju tímabili?
„Ef það verður gefið leyfi geri ég algjörlega ráð fyrir því.“
MAST þurfi að gefa út leyfi fyrir tilraunastarfsemina seme fara á í á næsta tímabili.
„Ef það á að gera þetta næsta ár verður að sækja um starfsleyfi fyrir hvern einasta stað sem hryssur eru haldnar fyrir slíka starfsemi. Síðan þarf Ísteka að sækja um leyfi til dýratilrauna,“ sagði Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá MAST.