Í nótt var greint frá því að stór hópur fólks hafi safnast saman á afleggjaranum að fangelsinu á Hólmsheiði, með það að markmiði að koma í veg fyrir að Edda Björk yrði flutt úr fangelsinu og afhent norskum yfirvöldum á grundvelli norrænnar handtökuskipunar.
Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, hefur gert málið að umfjöllunarefni sínu í aðsendri grein hér á Vísi.
Borgararnir eigi ekki að taka lögin í eigin hendur
Þar segir hann að málið tengist forsjárdeilu tveggja einstaklinga sem hafi verið mikið í fréttum undanfarna mánuði. Grein hans sé ekki um deiluna sjálfa enda þekki hann ekki málavexti og ætli ekki að kveða upp neina dóma hvað málið varðar.
Þess þurfi heldur ekki. Nokkur fjöldi dóma hafi þegar verið kveðinn upp. Ekki af dómstóli götunnar, heldur áfrýjunardómstólum í Noregi og á Íslandi.
„Þó einhverjum kunni að mislíka niðurstaða dómstólanna um að faðir barnanna skuli fara með forsjá þeirra, þýðir það ekki að borgararnir eigi að taka lögin í sínar hendur.“
Mótmælendur gætu hafa brotið lög
Í samtali við Vísi bendir Sigurður Örn á að það að hindra störf lögreglu sé ólögmætt, það geti verið brot gegn lögreglulögum og í alvarlegri tilvikum flokkast sem brot gegn valdstjórninni. Þá sé gertæki, það að taka lögin í eigin hendur, sérstakt brot í almennum hegningarlögum.
„Það er góð ástæða fyrir því, eins og ég kem inn á í greininni. Við erum búin að afmarka þetta, valdbeitingarréttinn. Hann liggur einungis hjá hinu opinbera, við viljum ekki að fólk fari að taka lögin í sínar hendur.“
„Þetta er augsýnilega harmleikur“
Sigurður Örn segir að í tilfelli mótmælendanna geti verið að tilfinningar hafi hlaupið með fólk í gönur.
„En ég hef af þessu töluverðar áhyggjur. Límið í samfélaginu það byggir á trausti. Trausti gagnvart kerfinu okkar, gagnvart stofnunum samfélagsins og lögunum. Það hefur staðið af sér ásókn á undanförnum árum og áratugum en við þurfum að passa upp á það. Ég skrifa þessa grein af ástæðu. Af því að mér mislíkar orðræðan og aðferðafræðin sem þarna hefur einhvern veginn tekið yfirhöndina. Það er augljóst, eins og oft er þegar mál ratar fyrir dómstóla, að málið er erfitt. Þetta er augsýnilega harmleikur.“
Þó séu leiðir í lögunum, til þess að útkljá þessar deilur, forsjárdeilur sem aðrar deilur. Það eigi að vera gert á grundvelli laga og fyrir dómstólum, ekki á vegslóða við Hólmsheiði.