Lögin voru því tæknilega séð í gildi í nokkrar klukkustundir og ýtti það undir óreiðu á landamærunum og reiði meðal ráðamanna í Mexíkó, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Málaferli um lögin munu fara aftur fram seinna í dag en óljóst er hvort áfrýjunardómstóll sem hefur málið til skoðunar mun úrskurða í því aftur.
Umrædd lög gera það að glæp fyrir farand- og flóttafólk að fara ólöglega yfir landamæri Texas og gera yfirvöldum þar kleift að handtaka fólk og reka það á brott.
Yfirvöld í Mexíkó hétu því í gær að taka ekki á móti neinum sem ráðamenn í Texas ætluðu að vísa aftur yfir landamærin og segja Mexíkóar að umrædd lög hvetji til aðskilnaðar fjölskyldna, mismununar og þau brjóti á réttindum farand- og flóttafólks.
Umrædd lög voru samþykkt á ríkisþingi Texas í fyrra og eru liður í ætlunum. Greg Abbott, ríkisstjóra Texas, í að draga úr fjölda farand- og flóttafólks í ríkinu. Hver sem fer með ólöglegum hætti stendur frammi fyrir allt að sex mánaða fangelsi en verði viðkomandi handtekinn öðru sinni fyrir sama brot, gæti hann verið dæmdur í allt að tuttugu ára fangelsi.
Lögin gera dómurum einnig kleift að vísa fólki aftur til Mexíkó, án samþykkis yfirvalda þar, og gefa lögregluþjónum Texas heimild til að framfylgja þeim skipunum dómara. Samþykki fólk að fara sjálfviljugt aftur til Mexíkó er dómurum samkvæmt lögunum heimilt að fella niður ákærur.
Landamæri Bandaríkjanna eru samkvæmt lögum undir stjórn yfirvalda í Washington DC, en ekki ráðamönnum hvers ríkis fyrir sig. Deilt hefur verið um hvort það standist stjórnarskrá Bandaríkjanna en í janúar komust dómarar hæstaréttar að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Joe Biden væri heimilt að fjarlægja gaddavír sem yfirvöld í Texas höfðu komið fyrir á landamærunum, á meðan dómstólar komast að niðurstöðu varðandi það hvort ráðamönnum ríkja sé yfir höfuð heimilt að reisa múra og varnarvirki á landamærunum.
Samkvæmt frétt Washington Post halda Abbott og aðrir ráðamenn í Texas því fram að lögin og fyrri aðgerðir, eins og gaddavírinn og það að þjóðvarðlið hafi verið sent að landamærunum, hafi þegar haft áhrif. Farand- og flóttafólk fari nú frekar yfir landamæri Arizona og Kaliforníu í stað Texas. Opinber gögn gefi til kynna að það sé rétt.
Mun færri reyni nú að komast yfir landamærin í Texas.