Erlent

Þing­maður hleypti af skoti fyrir utan skemmti­stað

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Atvikið átti sér stað fyrir utan skemmtistað í miðborg Helsinki aðfaranótt föstudags. 
Atvikið átti sér stað fyrir utan skemmtistað í miðborg Helsinki aðfaranótt föstudags.  Getty

Timo Vornanen, þingmaður Sannra Finna, var handtekinn og er grunaður um að hafa hleypt af skoti í götuslagsmálum sem brutust út í miðborg Helsinki aðfaranótt föstudags.

YLE greinir frá því að slagsmál hafi brostist út fyrir utan skemmtistaðinn Ihku um fjögur um nótt. Vornanen er sagður hafa mundað skammbyssu og hleypt skoti af í jörðina. Áður en hann hleypti af skotinu er hann einnig sagður hafa miðað henni á fólk. Lögreglan í Helsinki segist búa yfir myndefni af atvikinu úr öryggismyndavél.

Timo Vornanen situr sitt fyrsta kjörtímabil á þingi þeirra Finna en starfaði áður sem lögregluþjónn í meira en tvo áratugi. YLE hefur eftir Samppa Holopainen lögreglustjóra að hann geti ekki staðfest að hann hafi skilað þjónustuvopni sínu þegar hann hætti hjá lögreglunni.

Lögreglan fer ekki fram á gæsluvarðhald yfir Vornanen. Frumstigi rannsóknar lýkur í dag að sögn lögreglunnar og verður Vornanen sleppt úr haldi.

Riikka Purra, formaður Sannra Finna, segir í færslu á samfélagsmiðlinum X að um alvarlegt atvik sé að ræða og að þingflokkurinn muni grípa til viðeigandi ráðstafana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×