Ríkisstjórn Pedro Sánchez og Sósíalistaflokks hans lagði frumvarpið að lögunum fram til þess að fella niður sakamál gegn um fjögur hundruð Katalónum. Margir þeirra tóku þátt í að skipuleggja þjóðaratkvæðagreiðslu í Katalóníu sem var haldin í trássi við vilja landsstjórnarinnar árið 2017. Stjórnlagadómstóll Spánar taldi atkvæðagreiðsluna ólöglega.
Lögregumenn sem réðust á kjósendur í atkvæðagreiðslunni fá einnig sakaruppgjöf samkvæmt lögunum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Á meðal þeirra sem hagnast á lögunum er Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu sem átti frumkvæðið að atkvæðagreiðslunni fyrir sjö árum. Hann hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu og komist undan því að vera framseldur til Spánar í krafti stöðu sinnar sem Evrópuþingmaður.
Sósíalistaflokkur Sánchez þurfti að reiða sig á stuðning flokks Puigdemont, Saman fyrir Katalóníu, og annars flokks katalónskra sjálfstæðissinna til þess að mynda minnihlutastjórn eftir kosningar sem skiluðu hvorugum stóru flokkanna afgerandi meirihluta í fyrra. Sakaruppgjöfin var forsenda stuðnings Katalónanna við stjórnina.
Alberto Núñez Feijóo, leiðtogi Lýðflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, kallaði sakaruppgjöfina „pólitíska spillingu“ á hitafundi í spænska þinginu þegar lögin voru samþykkt.