Hin látnu eru Carmel Gat, Eden Yerushalmi, Hersh Goldberg-Polin, Alexander Lobanov, Almog Sarusi og liðþjálfinn Ori Danino. Um er að ræða fjóra karla og tvær konur.
Carmel Gat var rænt af samyrkjubúi í Be'eri en hinum fimm var rænt af tónlistarhátíð í suðurhluta Ísrael þann 7. október.
Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði að fólkið hefði verið „myrt grimmilega af hryðjuverkamönnum Hamas skömmu áður en við náðum til þeirra.“
Eftir að tilkynnt var um dauða Goldberg-Polin, sem var bandarískur ríkisborgari, sagðist Joe Biden Bandaríkjaforseti vera „niðurbrotinn og hneykslaður“ yfir fréttunum.
Foreldrar Goldberg-Polin mótmæltu í Ísrael á fimmtudag og kröfðu ísraelsk stjórnvöld um að semja um lausn gíslanna. Þau fluttu einnig ávarp á landsfundi Demókrata í Chicago í ágúst til að biðja um að þrýst yrði á samkomulag um lausn gíslanna.
Um hundrað gíslar enn í haldi
Rúmlega 100 gíslar Hamas voru frelsaðir í tímabundnu vopnahléi í fyrra og átta var bjargað af Ísraelsher, þar á meðal Farhan al-Qadi sem var bjargað úr göngum Hamas í vikunni. Talið er að enn séu um 100 gíslar í haldi Hamas.
Samkvæmt Hostages and Missing Families Forum, samtökum sem berjast fyrir frelsun gíslanna, eru 107 gíslar, lifandi og dauðir, enn í haldi Hamas í Gasa. Þar af eru 103 sem voru teknir í árásunum 7. október. Talið er að 33 þeirra séu dáin.
Um 40 þúsund Palestínubúar hafa verið drepnir frá því að gíslarnir voru teknir og Ísraelsher hóf innrás sína inn á Gasaströndina.