Það á að gera í Artemis III um mitt ár 2027.
Artemis-áætlunin snýst í stuttu máli um að senda geimfara aftur til tunglsins og koma þar upp varanlegri viðveru. Nota á tunglið sem stökkpall lengra út í sólkerfið.
Fyrir daginn í dag stóð til að senda Artemis II af stað í september á næsta ári. Því er um rúmlega hálfs árs töf að ræða. Í Artemis II verða þrír bandarískir og einn kanadískur geimfari sendir á braut um tunglið og til baka og á geimferðin að taka átta daga.

Hitaskjöldurinn sagður virka fínt
Í Artemis II stendur til að notast við Orion-geimfarið, sem einnig var notast við í fyrstu geimferð Artemis, þegar tómt geimfar var sent á braut um tunglið og til baka. Þá fundust miklar skemmdir á hitaskildi geimfarsins.
Þegar geimför snúa til jarðar eru þau á gífurlegum hraða og þegar þau mæta andrúmslofti hitna þau mjög mikið. Í þessu tilfelli náði yfirborðshiti Orion í allt að 2.760 gráður. Hitaskjöldum er í einföldu máli ætlað að verja geimför og geimfara gegn þessum hita.
Sjá einnig: Enn í basli með skemmdir á hitaskildi Orion
Í tilkynningu á vef NASA segir að rannsókn hafi leitt í ljós hvað hafi valdið þessum skemmdum og að hægt sé að ráða úr því. Öruggt sé að senda geimfara til tunglsins og til baka um borð í samskonar geimfari með samskonar hitaskjöld.
Þrátt fyrir skemmdirnar á hitaskildinum sína mælingar að hitastigið inn í geimfarinu hækkaði ekki svo mikið að það hefði haft áhrif á geimfara.
Þar segir einnig að ákveðið hafi verið að fresta geimskotinu vegna þeirra breytinga sem þarf að gera og til að gera breytingar á öðrum búnaði geimfarsins sem er geimförum nauðsynlegur í svona löngum geimferðum.
Thorough analysis has identified the root cause of char loss seen on the Artemis I heat shield. NASA determined that crew can safely fly on #Artemis II using the existing Orion heat shield design. Launch is now targeted for April 2026. More: https://t.co/SF4RsDGriO pic.twitter.com/3XBz2kVoYb
— Orion Spacecraft (@NASA_Orion) December 5, 2024
Á leið út og segist stoltur
„Artemis-áætlunin er kræfasta og tæknilega erfiðasta alþjóðlega samvinnuverkefni sem mannkynið hefur farið í,“ segir Bill Nelson, yfirmaður NASA, í áðurnefndri tilkynningu. Hann segir starfsmenn NASA hafa náð miklum árangri á undanförnum árum og að hann sé stoltur af starfsfólki stofnunarinnar.
„Við þurfum að framkvæma þetta næsta tilraunaflug rétt. Þannig mun Artemis-áætlunin ganga eftir.“
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna opinberaði í gær að hann ætlaði að setja auðjöfurinn Jared Isaacman yfir NASA í janúar.
Meðal þess sem Isaacman er sagður vilja gera er að binda enda á þróun Space Launch System eldflaugarinnar (SLS). Hann og Trump eru báðir sagðir hafa áhuga á því en þróun hennar og framleiðsla hefur farið langt fram úr öllum áætlunum.
Þrátt fyrir það nýtur verkefnið stuðnings á bandaríska þinginu og er það að mestu vegna starfa sem verkefnið skapar og þá aðallega í Alabama.
Fyrst átti að skjóta SLS-eldflaug á loft árið 2016. Því varð svo ítrekað frestað og var fyrsta skotið ekki fyrr en í nóvember 2022 sem eldflaugin fór fyrst á loft. Þá var búið að fresta geimskoti Artemis I ítrekað vegna bilana.
Sjá einnig: Ný eldflaug NASA langt á eftir áætlun og peningar fuðra upp
Í frétt Ars Technica segir að viðræður um framtíð SLS eldflauganna séu þegar byrjaðar. Einn mögulegur samningur um að binda enda á verkefnið snýst um að flytja yfirstjórn geimdeildar bandaríska hersins í staðinn til Alabama.
Gangi þetta eftir og verði SLS-eldflaugin kastað á öskuhaug sögunnar, ef svo má segja, kemur til greina að skjóta Orion á loft með New Glenn eldflaug, frá Blue Origin. Á braut um jörðu gæti geimfarið svo tengst Centaur efra stigi sem skotið væri á loft með Vulcan eldflaug frá United Launch Alliance og efra stigið gæti sent Orion af stað til tunglsins.