Kosningarnar eru þær fyrstu síðan hörð mótmæli brutust út eftir endurkjör Lukasjenkó árið 2020. Stjórnarandstaðan í landinu og yfirvöld vestrænna ríkja gagnrýndu úrslit kosninganna og sökuðu forsetann um að hagræða úrslitunum. Meira en þúsund manns sitja enn í fangelsi vegna mótmælanna, að því er kemur fram í umfjöllun Guardian. Samkvæmt landslögum Belarús er öll gagnrýni á hendur forsetanum ólögleg.
Belarús er undir stjórn Lukasjenkó í bandalagi við Rússland en forsetinn hefur lánað hersveitum Rússa landsvæði undir árásir inn í Úkraínu frá árinu 2022.
Pólitískir andstæðingar Lúkasjenkó eru allir annað hvort í fangelsi eða útlegð frá landinu. Tugir þúsunda Hvítrússa hafa flúið frá Belarús frá því að Lúkajenkó náði endurkjöri árið 2020. Í frétt Guardian segir að mótframbjóðendur Lúkasjenkó hafi verið valdir til þess að láta kosningarnar líta út fyrir að vera lýðræðislegar. Fáir þekki til þeirra.
Lúkasjenkó kom fram á kosningafundi á föstudag. „Allir okkar andstæðingar og óvinir, haldið ekki í vonina. Það sem gerðist árið 2020 verður aldrei endurtekið,“ sagði hann í ræðu sinni.