Hinn helmingurinn lítur á áhuga Trumps sem ógn.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem framkvæmd var fyrir grænlenska miðilinn Sermitsiaq og danska miðilinn Berlingske. Rætt var við 497 íbúa Grænlands sem valdir voru af handahófi, með áðurnefndum niðurstöðum.
Undanfarnar vikur hefur Trump ítrekað haldið því fram að Bandaríkin þurfi að eignast Grænlands vegna þjóðaröryggis og hefur hann meðal annars talað um að kaupa Grænland af Danmörku. þá hefur hann ekki viljað útiloka að beita hervaldi til að eignast Grænland.
Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, ítrekaði á dögunum að Grænlendingar vilji sjálfstæði og vilji ráða sér sjálfir.
„Við erum Grænlendingar, hvorki Danir né Bandaríkjamenn,“ sagði hann.
Sjá tækifæri í námuvinnslu
Þegar kemur að tækifærum sem Grænlendingar sjá í áhuga Trumps sagði Naaja Nathanielsen, sem er meðal annars námumálaráðherra Grænlands, fyrr í mánuðinum að hún væri sammála Trump um að nýta þyrfti auðlindir Grænlands betur en óttaðist hún að orðræða hans gæti fælt fjárfesta.
Sjá einnig: Óttast áhrif orðræðu Trumps á fjárfesta
Grænlendingar hafa reynt að ná til námufélaga heimsins að undanförnu og reynt að teikna Grænland upp sem stöðugt ríki sem er auðugt ýmsum góðmálmum og svokölluðum sjaldgæfum málmum, þar sem Kínverjar eru alfarið ráðandi á heimsvísu.
Sjá einnig: „Þetta snýst um sjaldgæfa málma, þetta snýst um auðlindir“
Aukin námuvinnsla á Grænlandi og tekjur af henni eru lykilatriði í ætlunum margra Grænlendinga varðandi sjálfstæði frá Danmörku. Tekjurnar gætu auðveldað Grænlendingum verulega að standa á eigin fótum, án fjárhagslegrar aðstoðar frá Danmörku.