Erlent

Kenndi Biden, flug­mönnum, , flug­um­ferðar­stjórum og „DEI“ um slysið

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Hvíta húsinu í kvöld.
Donald Trump í Hvíta húsinu í kvöld. AP/Jacquelyn Martin

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kenndi því sem kallað er DEI vestanhafs og stendur fyrir fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu um flugslysið í Washington DC í nótt. Sagði hann slík stefnumál og ráðningar á þeim grundvelli hafa grafið undan öryggi.

Hann gagnrýndi einnig áhöfn herþyrlunnar sem skall á farþegaflugvél svo 67 manns létu lífið, auk þess sem hann sagði Joe Biden, fyrrverandi forseta, og Pete Buttigieg, fyrrverandi samgönguráðherra, bera ábyrgð á slysinu vegna meintra ráðninga á fólki sem forsetinn sagði vera vanheilt á geði og greindarskert.

Það hefði verið gert á grunni DEI og um væri að ræða stefnu sem heimilaði einnig ráðningu sjón- og heyrnarskerts fólks og fólks með dvergvöxt.

„Við verðum að vera með okkar gáfaðasta fólk,“ sagði Trump. „Þeir verða að vera náttúrulega hæfileikaríkir snillingar.“

Þegar Trump var spurður hvernig hann gæti kennt DEI-stefnum um slysið svaraði hann: „Af því að ég hef almenna skynsemi og því miður eru margir sem hafa hana ekki.“

Þetta sagði Trump á blaðamannafundi sem hann hélt fyrr í kvöld. Innan við sólarhring eftir að slysið varð og áður en vitað er með vissu hvað olli slysinu.

Forsetinn byrjaði að votta fjölskyldum þeirra sem létu lífið samúð sína, áður en hann byrjaði að fara um víðan völl um slysið.

„Við vitum ekki hvað leiddi til slyssins enn en við höfum mjög sterkar skoðanir,“ sagði Trump.

Hann velti, eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar, vöngum yfir því hvort þyrluflugmennirnir hefðu verið með nætursjónauka, lýsti því yfir að um væri að ræða „flugmannavanda“, sagði að þyrlunni hafi verið flogið „á ótrúlega slæmri átt“ og spurði af hverju flugmenn þyrlunnar hefðu ekki stöðvað hana. Því hægt væri að stöðva þyrlur mjög hratt.

Þá virtist hann einnig gagnrýna flugumferðarstjóra vegna þess að þyrlan og flugvélin, sem var í aðflugi fyrir lendingu, hafi verið á sömu hæð.

Trump, sem rak nýlega yfirmann flugumferðarstofnunar Bandaríkjanna (FAA), tók Sean Duffy, nýjan samgönguráðherra, upp á svið og ítrekaði við hann að slysið væri ekki honum að kenna.

Buttigieg hefur tjáð sig um ummæli Trumps of fordæmt þau harðlega sem fyrirlitleg.

„Á meðan fjölskyldur syrgja, ætti Trump að leiða, ekki ljúga,“ skrifaði Buttigieg í færslu á X. Hann sagði að á tíma síðustu ríkisstjórnar hefði öryggi verið aukið og flugumferðarstjórum fjölgað. Ekkert alvarlegt slys hefði átt sér stað á þessum tíma.

Trump, sem stýrði núna bæði hernum og FAA, hefði gert það að einum sínum fyrstu verkum að reka mikilvæga starfsmenn flugumferðarstofnunarinnar. Nú væri tíminn til að leiða og útskýra fyrir þjóðinni hvað hann ætlaði að gera til að tryggja að þetta kæmi ekki fyrir aftur.

Á einum tímapunkti á blaðamannafundinum í kvöld sagði blaðamaður Trump að það væri alls ekki rétt að ráðningarstefnan sem hann hefði nefnt væri ný og hefði verið sett á laggirnar í forsetatíð Bidens.

„Hver segir það, þú?“ spurði Trump þá.

Blaðamaðurinn benti þá á að þessi stefna hefði fyrst verið nefnd á vef FAA árið 2013 og spurði af hverju Trump hefði ekki fellt hana úr gildi í fyrri forsetatíð hans. Trump sagðist þá hafa breytt henni en að Biden hefði breytt henni til baka.

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrataflokksins í öldungadeild Bandaríkjanna, gagnrýndi Trump einnig harðlega í kvöld. Hann sagði ótækt að forseti Bandaríkjanna kastaði fram ummælum eins og hann hefði látið frá sér í kvöld, á meðan enn væri verið að leita að líkum fólks í Potomac-ánni og tilkynna fjölskyldum að ástvinir þeirra væru látnir.

„Manni verður bumbult,“ skrifaði Schumer.


Tengdar fréttir

Búið að ná 28 líkum upp úr ísilögðu vatninu

Fjölmiðlar vestanhafs segja 28 lík hafa verið heimt úr Potomac-ánni, þar sem brak úr flugvélinni og þyrlunni sem lentu saman í gærkvöldi flýtur innan um ís. Yfirvöld hafa ekki staðfest fjölda látinna en ef rétt reynist eru 39 enn í vatninu.

Rússneskir heimsmeistarar meðal farþega vélarinnar

Stjórnvöld í Rússlandi hafa staðfest að Evgenia Shishkova og Vadim Naumov, fyrrverandi heimsmeistarar í listdansi á skautum, hafi verið meðal farþega í flugvélinni sem fórst fyrir utan Washington í gærkvöldi að staðartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×