Uppgjörið: Valur - Höttur 92 - 58 | Valsmenn keyrðu yfir Hött í fyrri hálfleik Siggeir Ævarsson skrifar 7. febrúar 2025 20:45 Kristinn Pálsson og félagar í Valsliðinu unnu léttan sigur í kvöld. Vísir/Diego Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld með 34 stiga sigri á Hetti, 92-58, á Hlíðrenda. Þetta var fjórði sigur Valsliðsins í röð og kom liðinu upp í fimmta sætið. Tvö lið í leit að mikilvægum stigum í Bónus-deild karla mættust á Hlíðarenda í kvöld en 25-2 áhlaup heimamanna undir lok fyrri hálfleiks slökkti hressilega í vonum Hattar um að ná í sinn fyrsta sigur í sex leikjum. Leikurinn fór klunnalega af stað og fyrstu fjórar sóknir hans minntu á fyrsta leik að hausti, slíkur var flumbrugangurinn í sendingum og skotum. Gestirnir komust svo í ágætan takt og leiddu með tveimur stigum, 17-19, eftir fyrstu tíu mínúturnar. Þristarnir voru ekki að detta hjá báðum liðum framan af en svo brast á með úrhelli og Hattarmenn virtust ætla að setjast í bílstjórasætið en þá varð hrun. Valsmenn breyttu stöðunni úr 25-32 í 48-32. Þetta virtist algjörlega draga allan vind úr seglum gestanna og skildi engan undra og ekki hjálpaði til að Nemanja Knezevic fékk tvær tæknivillur í röð fyrir tuð og lauk leik þegar aðeins 17 mínútur voru liðnar af leiknum. Eftir þetta áhlaup var það nánast formsatriði fyrir Valsmenn að klára leikinn. Vonleysi Hattar kórónaðist mögulega í loftbolta Adam Heede-Andersen sem kom í kjölfarið á þristi frá Ramos. Það gekk einfaldlega ekkert upp hjá Hetti eftir því sem leið á leikinn en Valsmenn leiddu með tæpum 30 stigum fyrir lokaleikhlutann, 76-49. Þægilegur yfirburðasigur hjá Valsmönnum í kvöld. Hagur þeirra vænkast í deildinni en farið að syrta ískyggilega í álinn hjá Hattarmönnum og falldraugurinn farinn að banka fast á dyrnar. Lokatölur 92-58. Atvik leiksins Vendipunkturinn í þessum leik kom þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og staðan 33-32. Þá fékk Nemanja Knezevic tæknivillu fyrir að heimta villu og síðan aðra í kjölfarið fyrir að halda áfram að kvarta ofan í andlitinu á Birgi Erni dómara. Valsmenn skoruðu í kjölfarið 17 stig gegn tveimur og gerði í raun út um leikinn í fyrri hálfleik. Stjörnur og skúrkar Kristinn Pálsson var frábær sóknarlega fyrir Valsmenn í kvöld. Setti stóra þrista og var illviðráðanlegur en hann fiskaði nokkrar skrautlegar villur. 22 stig frá honum og fimm þrista í tíu tilraunum. Þá var Kári Jónsson mjög líflegur á köflum og skilaði 13 stigum og átta stoðsendingum og Ástþór Svalason kom ferskur inn af bekknum. Setti þrjá þrista, skoraði ellefu stig, gaf fimm stoðsendingar og tók sex fráköst. Hjá Hetti stóð ekki steinn yfir steini og frammistaða þeirra til skammar að mati Viðars Arnar, þjálfara liðsins. Skúrkur kvöldsins er þó án vafa Nemanja Knezevic í ljósi þess sem ritað var hér að ofan. Dómararnir Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson og Birgir Örn Hjörvarsson fengu það verkefni að dæma leikinn í kvöld og gerðu það ágætlega. Stór ákvörðun að reka Knezevic úr húsi en hann getur sjálfum sér um kennt. Stemming og umgjörð Það var mikið um að vera á Hlíðarenda í kvöld en stúkan innandyra var ekkert sérlega þéttsetin. Það verður engu að síður að hrósa Valsmönnum fyrir frábæra hamborgara af grillinu, en þeir buðu upp þétt brauð, bragðgott kjöt og kál, gúrku OG tómata á burgerinn. Meira svona takk. Viðtöl Finnur Freyr: „Við lesum ekki of mikið í þetta“ Finnur Freyr reynir að halda mönnum jarðtengdumVísir/Davíð Már Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, vildi ekki gera of mikið úr stórskotahríð sinna manna undir lok fyrri hálfleiks í kvöld. Vörnin small og þá kom sóknin með. „Við vorum búnir að vera að skjóta boltanum illa og búnir að vera mjög slakir varnarlega framan af í leiknum. En þegar við náum að binda vörnina saman og fáum skotin til að detta þá oft einhvern veginn hrökkva hlutirnir í gang. Við náðum svolítið að stýra betur liðinu, stýra leiknum betur. Bara vel gert hjá strákunum.“ Valsmenn hafa nú unnið fjóra leiki í röð en Finnur sagði að það skipti litlu máli hvað hann segði við sína menn til að halda þeim á jörðinni eftir þessa frammistöðu. „Ég held að það skipti engu máli hvað ég segi eftir svona. Nú er þessi leikur bara búinn og tvö mikilvæg stig í sarpinn. Við lesum ekkert í það hvernig hann fór. Höttur voru fljótir að missa trúna, eins og gengur þegar maður er búinn að tapa mörgum leikjum. Við lesum ekki of mikið í þetta, erum ánægðir með tvö stigin svo höldum við bara áfram.“ Valsmenn fengu gott framlag af bekknum í kvöld og það var ekki að sjá að það vantaði tvo lykilleikmenn í hópinn. „Ástþór Atli frábær í dag, mér fannst Hjálmar gera virkilega vel. Svo eru bara allskyns hlutir. Við eigum meira inni frá öðrum. Það er bara eins og góð lið gera, það þurfa ekki alltaf allir að vera að skora og það þurfa ekki allir að gera sitt. Kiddi átti náttúrulega frábær móment og Kári kom aðeins meira inn í seinni. Það er bara styrkleiki liða að treysta ekki of mikið á einhverja ákveðna hluti heldur að vera fjölbreyttari.“ Sigurinn fleytti Valsmönnum úr 8. sæti upp í það 5. og upp að hlið Grindavíkur en Finnur pælir lítið í stöðunni á þessum tímapunkti. „Ég held að sætin núna skipti engu máli. Það eru fimm leikir eftir, þegar þeir eru búnir getum við pælt í stöðunni. Nú er bara fókusinn á KR í næstu viku og ná góðri æfingaviku. Vonandi verðum við komnir með tvo góða skrokka í búning sem hafa ekki verið dressaðir lengi.“ Það er Reykjavíkurslagur framundan og Finnur er fullur tilhlökkunar að mæta á sinn gamla heimavöll þar sem hann gerði garðinn frægan á sínum tíma. „Bara gaman að sjá hvað KR-ingarnir eru búnir að vera öflugir í vetur þótt þeir hafi átt slæman leik í gær. Það er virkilega gott að sjá hvað Jakob er að gera þarna. Maður finnur svona eitthvað í loftinu í Vesturbænum að félagið er að snúast í rétta átt eftir smá lægð. Gríðarlega vel mætt alltaf og ég hlakka mikið til að koma þangað eins og alltaf.“ Bónus-deild karla Valur Höttur Körfubolti
Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld með 34 stiga sigri á Hetti, 92-58, á Hlíðrenda. Þetta var fjórði sigur Valsliðsins í röð og kom liðinu upp í fimmta sætið. Tvö lið í leit að mikilvægum stigum í Bónus-deild karla mættust á Hlíðarenda í kvöld en 25-2 áhlaup heimamanna undir lok fyrri hálfleiks slökkti hressilega í vonum Hattar um að ná í sinn fyrsta sigur í sex leikjum. Leikurinn fór klunnalega af stað og fyrstu fjórar sóknir hans minntu á fyrsta leik að hausti, slíkur var flumbrugangurinn í sendingum og skotum. Gestirnir komust svo í ágætan takt og leiddu með tveimur stigum, 17-19, eftir fyrstu tíu mínúturnar. Þristarnir voru ekki að detta hjá báðum liðum framan af en svo brast á með úrhelli og Hattarmenn virtust ætla að setjast í bílstjórasætið en þá varð hrun. Valsmenn breyttu stöðunni úr 25-32 í 48-32. Þetta virtist algjörlega draga allan vind úr seglum gestanna og skildi engan undra og ekki hjálpaði til að Nemanja Knezevic fékk tvær tæknivillur í röð fyrir tuð og lauk leik þegar aðeins 17 mínútur voru liðnar af leiknum. Eftir þetta áhlaup var það nánast formsatriði fyrir Valsmenn að klára leikinn. Vonleysi Hattar kórónaðist mögulega í loftbolta Adam Heede-Andersen sem kom í kjölfarið á þristi frá Ramos. Það gekk einfaldlega ekkert upp hjá Hetti eftir því sem leið á leikinn en Valsmenn leiddu með tæpum 30 stigum fyrir lokaleikhlutann, 76-49. Þægilegur yfirburðasigur hjá Valsmönnum í kvöld. Hagur þeirra vænkast í deildinni en farið að syrta ískyggilega í álinn hjá Hattarmönnum og falldraugurinn farinn að banka fast á dyrnar. Lokatölur 92-58. Atvik leiksins Vendipunkturinn í þessum leik kom þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og staðan 33-32. Þá fékk Nemanja Knezevic tæknivillu fyrir að heimta villu og síðan aðra í kjölfarið fyrir að halda áfram að kvarta ofan í andlitinu á Birgi Erni dómara. Valsmenn skoruðu í kjölfarið 17 stig gegn tveimur og gerði í raun út um leikinn í fyrri hálfleik. Stjörnur og skúrkar Kristinn Pálsson var frábær sóknarlega fyrir Valsmenn í kvöld. Setti stóra þrista og var illviðráðanlegur en hann fiskaði nokkrar skrautlegar villur. 22 stig frá honum og fimm þrista í tíu tilraunum. Þá var Kári Jónsson mjög líflegur á köflum og skilaði 13 stigum og átta stoðsendingum og Ástþór Svalason kom ferskur inn af bekknum. Setti þrjá þrista, skoraði ellefu stig, gaf fimm stoðsendingar og tók sex fráköst. Hjá Hetti stóð ekki steinn yfir steini og frammistaða þeirra til skammar að mati Viðars Arnar, þjálfara liðsins. Skúrkur kvöldsins er þó án vafa Nemanja Knezevic í ljósi þess sem ritað var hér að ofan. Dómararnir Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson og Birgir Örn Hjörvarsson fengu það verkefni að dæma leikinn í kvöld og gerðu það ágætlega. Stór ákvörðun að reka Knezevic úr húsi en hann getur sjálfum sér um kennt. Stemming og umgjörð Það var mikið um að vera á Hlíðarenda í kvöld en stúkan innandyra var ekkert sérlega þéttsetin. Það verður engu að síður að hrósa Valsmönnum fyrir frábæra hamborgara af grillinu, en þeir buðu upp þétt brauð, bragðgott kjöt og kál, gúrku OG tómata á burgerinn. Meira svona takk. Viðtöl Finnur Freyr: „Við lesum ekki of mikið í þetta“ Finnur Freyr reynir að halda mönnum jarðtengdumVísir/Davíð Már Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, vildi ekki gera of mikið úr stórskotahríð sinna manna undir lok fyrri hálfleiks í kvöld. Vörnin small og þá kom sóknin með. „Við vorum búnir að vera að skjóta boltanum illa og búnir að vera mjög slakir varnarlega framan af í leiknum. En þegar við náum að binda vörnina saman og fáum skotin til að detta þá oft einhvern veginn hrökkva hlutirnir í gang. Við náðum svolítið að stýra betur liðinu, stýra leiknum betur. Bara vel gert hjá strákunum.“ Valsmenn hafa nú unnið fjóra leiki í röð en Finnur sagði að það skipti litlu máli hvað hann segði við sína menn til að halda þeim á jörðinni eftir þessa frammistöðu. „Ég held að það skipti engu máli hvað ég segi eftir svona. Nú er þessi leikur bara búinn og tvö mikilvæg stig í sarpinn. Við lesum ekkert í það hvernig hann fór. Höttur voru fljótir að missa trúna, eins og gengur þegar maður er búinn að tapa mörgum leikjum. Við lesum ekki of mikið í þetta, erum ánægðir með tvö stigin svo höldum við bara áfram.“ Valsmenn fengu gott framlag af bekknum í kvöld og það var ekki að sjá að það vantaði tvo lykilleikmenn í hópinn. „Ástþór Atli frábær í dag, mér fannst Hjálmar gera virkilega vel. Svo eru bara allskyns hlutir. Við eigum meira inni frá öðrum. Það er bara eins og góð lið gera, það þurfa ekki alltaf allir að vera að skora og það þurfa ekki allir að gera sitt. Kiddi átti náttúrulega frábær móment og Kári kom aðeins meira inn í seinni. Það er bara styrkleiki liða að treysta ekki of mikið á einhverja ákveðna hluti heldur að vera fjölbreyttari.“ Sigurinn fleytti Valsmönnum úr 8. sæti upp í það 5. og upp að hlið Grindavíkur en Finnur pælir lítið í stöðunni á þessum tímapunkti. „Ég held að sætin núna skipti engu máli. Það eru fimm leikir eftir, þegar þeir eru búnir getum við pælt í stöðunni. Nú er bara fókusinn á KR í næstu viku og ná góðri æfingaviku. Vonandi verðum við komnir með tvo góða skrokka í búning sem hafa ekki verið dressaðir lengi.“ Það er Reykjavíkurslagur framundan og Finnur er fullur tilhlökkunar að mæta á sinn gamla heimavöll þar sem hann gerði garðinn frægan á sínum tíma. „Bara gaman að sjá hvað KR-ingarnir eru búnir að vera öflugir í vetur þótt þeir hafi átt slæman leik í gær. Það er virkilega gott að sjá hvað Jakob er að gera þarna. Maður finnur svona eitthvað í loftinu í Vesturbænum að félagið er að snúast í rétta átt eftir smá lægð. Gríðarlega vel mætt alltaf og ég hlakka mikið til að koma þangað eins og alltaf.“