Erlent

Í­halds­menn sigruðu en munu eiga erfitt með að mynda meiri­hluta

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Íhaldsmenn voru að vonum glaðir með úrslitin.
Íhaldsmenn voru að vonum glaðir með úrslitin. AP/Martin Meissner

Íhaldsmenn báru sigur úr býtum í þýsku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Það eru því allar líkur á því að formaður Kristilegra demókrata, Friedrich Merz, verði næsti kanslari Þýskalands.

CDU/CSU fékk 28,6 prósent atkvæða, sem er rétt undir þeim 30 prósentum sem fylkingunni hafði verið spáð. CDU er flokkur kristilegra demókrata sem býður fram í öllum ríkjum Þýskalands utan Bavaríu, þar sem CSU stillir upp lista.

Stóru fréttir kosninganna eru hinsvegar þær að harðlínuflokkurinn AFD, eða Annar kostur fyrir Þýskaland, vann sögulegan sigur. 

Flokkurinn, sem var stofnaður árið 2013 og náði ekki inn á þing í fyrstu kosningunum sínum, fékk nú rúm 20 prósent atkvæða og er næststærsti flokkurinn á þingi. 

Staðan eftir kosningarnar er sú að í austurhluta landsins ráða AFD nær alfarið ríkjum og eru stærsti flokkurinn þar en í vesturhlutanum eru það kristilegir Demókratar. 

Sósíaldemókratar, flokkur núverandi kanslara, Olaf Scholz, eru aðeins með sextán prósenta fylgi en Græningjar fengu rúm ellefu prósent og Vinstrimenn tæp níu. 

Þrátt fyrir sigurinn er Merz ákveðinn vandi á höndum, því hann hefur útilokað að vinna með AFD og leiðtoga þeirra Alice Weidel. Hann hafði því vonast eftir sterku umboði til að mynda stjórn með einum öðrum flokki. 

Það virðist nú vera ómögulegt og því þarf að fá fleiri flokka að borðinu. 

Alice Weidel var sigurreif á kosningakvöldinu og sagði ljóst að Merz muni ekki ganga vel að mynda samsteypustjórn með hinum flokkunum og því verði kosið á ný í Þýskalandi innan tíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×