Erlent

Fyrsti fasi vopnahlésins á enda og fram­tíðin ó­ljós

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Palestínubúar skreyta fyrir Ramadan hátíðina sem hófst í gær og stendur til 30. mars.
Palestínubúar skreyta fyrir Ramadan hátíðina sem hófst í gær og stendur til 30. mars. EPA/HAITHAM IMAD

Fyrsta fasi í þriggja fasa vopnahléi Hamas og Ísrael lýkur í dag en viðræður um annan fasa ganga hægt. Hamas höfnuðu tillögu Ísraela um að lengja fyrsta fasann.

Ísraelar hafa nú þegar lagt fram tillögu um að lengja fyrsta fasann um aðrar sex vikur og þar af leiðandi yfir íslömsku hátíðina Ramadan. Gegn því vildu Ísraelar fá fleiri gísla afhenta. Hamas höfnuðu tillögunni og sögðu að hún færi gegn vopnahléssamkomulaginu sjálfu. 

Embættismenn frá Ísrael, Katar, Egyptalandi og Bandaríkjunum hafa átt í vopnahlésviðræðum í Kaíró, höfuðborg Egyptalands. Enginn embættismaður frá Hamas hefur verið viðstaddur friðarviðræðurnar en fulltrúar Egyptalands og Katar verja þeirra málstað.

Ísraelsku embættismennirnir snéru heim í gær og sögðu lítinn sem engan árangur hafa náðst. Þá er óvíst hvort þeir snúi aftur til Kaíró í dag til að halda viðræðunum áfram. Í umfjöllun AP fréttaveitunnar kemur fram að Hamas veit ekki hvenær viðræðurnar komi til með að halda áfram.

Þrátt fyrir að fyrsta fasanum sé formlega lokið í dag var hluti af friðarsamkomulagi Hamas og Ísrael að átök myndu ekki hefjast aftur á meðan friðarviðræður væru í gangi.

Sex vikna vopnahlé hófst 19. janúar en á þessum sex vikum hefur Hamas skilað 33 ísraelskum gíslum, þar á meðal átta líkum. Á móti hefur Ísrael látið tæpa tvö þúsund palestínska fanga. 

Þá þurfti ísraelski herinn einnig að hverfa frá norðurhluta Gasa en íbúar hafa margir snúið aftur til síns heima. Um er að ræða þriggja fasa vopnahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×