Erlent

Rann­saka góð­gerðar­sam­tök sem Harrý stofnaði

Jón Þór Stefánsson skrifar
Prinsarnir tveir, Harrý og Seeiso á viðburði tengdum Sentebale.
Prinsarnir tveir, Harrý og Seeiso á viðburði tengdum Sentebale. Getty

Bresk eftirlitstofnun rannsakar nú góðgerðarsamtökin Sentebale í kjölfar ásakanna formanns samtakanna á hendur Harrý Bretaprinsi sem kom að stofnun samtakanna.

Harrý Bretaprins og Seeiso, prinsinn af Lesótó, stofnuðu Sentebale árið 2006 en markmið samtakanna er að hjálpa og börnum og ungmennum í suðurhluta Afríku í baráttunni við HIV og AIDS.

Sophie Chandauka, formaður Sentebale, sagði í viðtali við The Financial Times á laugardaginn að Harrý hefði reynt að grafa undan samtökunum. Jafnframt sagðist hún hafa orðið fyrir einelti, henni sýnd vanvirðing og hún fundið fyrir kvenhatri.

Í aðdraganda þess hafði stjórn samtakanna krafist þess að hún myndi segja af sér. Hún féllst ekki á það og í kjölfarið hætti stjórnin og prinsarnir tveir hættu að styrkja samtökin.

„Það hefur verið gríðarlega erfitt að fylgjast með því sem hefur átt sér stað síðastliðna viku, sérstaklega er vont að verða vitni að augljósum lygum sem særa þá sem hafa fjárfest áratugum til að vinna að þessu sameiginlega markmiði,“ hefur BBC eftir Harrý Bretaprinsi.

Jafnframt greinir BBC nú frá því að áðurnefnd eftirlitsstofnun sé nú með samtökin til skoðunar, en bæði Harrý og Chandauka segjast fagna því.

Það sem stofnunin er sögð rannsaka er hvort stjórnendur og aðstandendur Sentebale hafi farið eftir reglum um góðgerðarsamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×