Sektin gæti orðið meira en milljarður dala (um 131 milljarður króna).
Samkvæmt heimildum New York Times á einnig að fylgja sektinni krafa um að breytingar verði gerðar á X, í samræmi við lög ESB. Ef ákvörðun verður tekin um að taka slaginn við yrði það tilkynnt í sumar en það yrði í fyrsta sinn sem slíkt yrði gert á grunni nýrra laga um samfélagsmiðla og ritstjórn á þeim.
Hægt var á rannsókninni eftir að Trump var kjörinn forseti vestanhafs en samkvæmt heimildum NYT var nýleg ákveðið að keyra málið áfram. Samskipti ESB og Bandaríkjanna hafa beðið hnekki frá því Trump tók við embætti í janúar.
„Við munum ávallt framfylgja lögum okkar með sanngirni og án mismununar gagnvart öllum fyrirtækjum sem starfa innan Evrópusambandsins, í fullu samræmi við alþjóðareglur,“ hefur NYT eftir talsmanni framkvæmdastjórnar ESB. Sá vildi ekki tjá sig með beinum hætti um málefni X.
Í kjölfar þess að fréttin var birt sagði annar talsmaður að ekki væri verið að skoða eins háa sekt og NYT heldur fram. Tillögur að sekt lægju ekki fyrir.
Þá var skrifað í yfirlýsingu á síðu X á X að ef þessar fregnir væru réttar væri um að ræða pólitíska ritskoðun af fordæmalausum skala og árás á málfrelsi. X færi eftir reglum ESB.
If the reports that the European Commission is considering enforcement actions against X are accurate, it represents an unprecedented act of political censorship and an attack on free speech. X has gone above and beyond to comply with the EU’s Digital Services Act, and we will…
— Global Government Affairs (@GlobalAffairs) April 4, 2025
Ráðamenn í Brussel búast við því að Musk myndi berjast gegn refsingu, eins og hann sagði síðasta sumar þegar bráðabirgðaniðurstöður á rannsókn gagnvart X voru fyrst birtar.
Þar var því haldið fram að X færi gegn áðurnefndum lögum með því að neita að veita utanaðkomandi rannsakendum aðgang að ýmsum gögnum samfélagsmiðilsins. Þar er um að ræða gögn sem hægt væri að nota til að greina upplýsingaóreiðu og hatursorðræðu á samfélagsmiðlinum.
X er einnig sakað um að veita ekki nægilegar upplýsingar um auglýsendur. Þá snýr ein ásökunin að því að fyrirtækið kannar ekki hverjir greiða fyrir þjónustu, sem sagt er gera samfélagsmiðilinn viðkvæman fyrir áróðursherferðum ríkja.