Erlent

Yngsti lýðræðis­lega kjörni þjóð­höfðingi heims endur­kjörinn

Atli Ísleifsson skrifar
Daniel Noboa forseti ávarpar stuðningsmenn sína í gærkvöldi.
Daniel Noboa forseti ávarpar stuðningsmenn sína í gærkvöldi. AP

Hægrimaðurinn Daniel Noboa hefur verið endurkjörinn forseti Ekvadors og mun því gegna embættinu næstu fjögur árin. Hann hafði betur gegn hinni vinstrikonunni Luisa González í síðari umferð kosninganna sem fram fóru í gær.

Noboa lýsti sigrinum sem „sögulegum“, en hann tók við forsetaembættinu í nóvember 2023 eftir að boðað var til skyndikosninga þar sem hann hafði einnig betur gegn González.

Forsetatíð Noboa hefur að stórum hluta einkennst af átökum hers landsins við glæpagengi.

Eftir að úrslit kosninganna voru kynnt sagðist González ekki viðurkenna ósigur og sagði brögð hafa verið í tafli án þess þó að leggja fram sannanir. Landskjörstjórn Ekvadors sagði Noboa hafa hlotið 56 prósent atkvæða, en skoðanakannanir höfðu bent til þess að mjög jafnt væri á munum.

Luisa González seigst ekki viðurkenna ósigur sinn. AP

Hinn 37 ára Noboa er sem stendur yngsti lýðræðislega kjörni þjóðhöfðingi heims.

Noboa segist nú hafa umboð til þess að halda baráttunni sinni gegn glæpagengjum áfram, en hann hefur talað fyrr því að koma herliði á göturnar og setja á laggirnar ný öryggisfangelsi í landinu. Þá hefur hann opnað á að heimila erlendar herstöðvar í landinu, en bann var lagt við slíkum herstöðvum í forsetatíð vinstrimannsins Rafael Correa, læriföður González.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×