Erlent

Ís­raels­her játar „fag­leg mis­tök“ í máli hjálpar­starfs­mannanna

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi sem einn bráðaliðanna náði á vettvangi og sýnir hvernig Ísraelsher laug til um að hafa myrt bráðaliðana.
Skjáskot úr myndbandi sem einn bráðaliðanna náði á vettvangi og sýnir hvernig Ísraelsher laug til um að hafa myrt bráðaliðana. AP

Ísraelsher hefur viðurkennt að „fagleg mistök“ og brot á skipunum hafi átt sér stað þegar fimmtán hjálparstarfsmenn á Gasaströndinni voru drepnir. Þeir neita hins vegar að þeir hafi reynt að fela atvikið.

Sautján hjálparstarfsmenn á vegum Rauða hálfmánans, Palestínsku varnarsveitanna og Sameinuðu þjóðanna, voru að störfum að kvöldi 23. mars þegar þeir fimmtán þeirra voru skotnir til bana og lík þeirra grafin í grunnri gröf nærri flökum bíla þeirra. Eini eftirlifandi maðurinn lýsti því hvernig hermenn Ísraelshers létu hann afklæðast, pyntuðu og börðu hann. Síðasta starfsmannsins er enn saknað en sjónarvottur sá hann leiddan burt af hernum.

Nú er rannsókn af hálfu Ísraelshers lokið og segja þeir að einn herforingi hafi fengið áminningu vegna málsins og varaforingja vikið frá starfi. Ekki kom fram hvort að þeir yrðu kærðir vegna atviksins samkvæmt umfjöllun Reuters. Þeir neita hins vegar að hafa reynt að leyna atvikinu á einhvern hátt.

Ísraelsmenn héldu því fyrst fram að bílalest starfsmannanna, sem samanstóð af sjúkrabílum, bíl Sameinuðu þjóðanna og slökkviliðsbíl hafi ferðast „grunsamlega“ og án ljósa og því hafi hermennirnir skotið á hana. Myndefni af vettvangi sýnir að svo hafi ekki verið og leiðréttu Ísraelar þær rangfærslur. 

Herinn hélt því einnig fram að þeir hafi vitað að bílarnir væru á vegum Hamas, en engin sönnunargögn hafa borist um hvernig þeir ákvörðuðu að bílarnir væru á vegum Hamas. Þeir sögðu einnig að sex af þeim fimmtán sem létust væru Hamasliðar en Hamas-samtökin hafa neitað þeirri fullyrðingu.

Í myndskeiðinu sést bílalestin, greinilega merkt sem sjúkrabílar og slökkviliðsbílar, verða fyrir skothríð hermanna Ísraelshers. 

Í yfirlýsingu frá hernum segir að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós fagleg mistök og brot á skipunum auk þess sem atvikið hafi ekki verði tilkynnt.

Þegar rannsókn Ísraelshers hófst neitaði talsmaður hersins því að mennirnir hafi verið teknir af lífi. Talsmenn Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans sögðu árásina svívirða. Þeir segja reglur sem séu í gildi á átakasvæðum skýrar, almennir borgarar, sjúkraliðar að störfum og hjálparstarfsmenn eigi að njóta friðhelgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×