Upp­gjörið: Grinda­vík - Stjarnan 99-100 | Ótrú­legur endir kostaði Grind­víkinga sigurinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jeremy Pargo og Jese Febres eigast við í Smáranum í kvöld.
Jeremy Pargo og Jese Febres eigast við í Smáranum í kvöld. Vísir/Guðmundur

Stjarnan er komin í 2-0 gegn Grindavík í undanúrslitaeinvígi liðanna í Bónus-deild karla. Stjarnan vann 100-99 sigur eftir ótrúlega dramatík og getur tryggt sér sæti í úrslitum með sigri í þriðja leik liðanna á mánudag.

Grindvíkingar höfðu frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn eru frá eru taldar allra fyrstu mínútur leiksins. Varnarleikur heimamanna var mun grimmari en í fyrsta leik liðanna í Ásgarði og þá voru Stjörnumenn að hitta afar illa fyrir utan þriggja stiga línuna og settu aðeins tvö skot niður af nítján í fyrri hálfleiknum.

Hilmar Smári Henningsson skýtur á körfuna með stuðningsmenn Grindavíkur í bakinu.Vísir/Guðmundur

Hins vegar var Shaquille Rombley öflugur undir körfunni og spurning hvort áherslan hjá heimamönnum hafi verið að stoppa skyttur Stjörnunnar sem opnaði meira fyrir Rombley.

Grindavík náði mest fimmtán stiga forskoti í stöðunni 50-35 en Stjarnan lauk fyrri hálfleiknum á 15-2 áhlaupi og sá til þess að aðeins munaði tveimur stigum í hálfleik. Staðan þá 52-50.

Valur Orri Valsson sækir að körfu Stjörnunnar.Vísir/Guðmundur

Leikmenn Stjörnunnar mættu mjög grimmir til leiks í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn svöruðu alltaf og skiptust liðin oft á tíðum á forystunni. Grindavík var með sex stiga forskot fyrir lokafjórðunginn og komst mest tíu stigum yfir þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Þá fór hins vegar flest að fara úrskeiðis sem gat hjá heimamönnum. Garðbæingar settu á sama tíma stór skot og þegar hálf mínúta var eftir minnkaði Rombley muninn í 99-98. Grindavík fór í sókn en tapaði boltanum og eftir leikhlé Garðbæinga skoraði Ægir Þór Steinarsson og kom Stjörnunni í forystu með örfáar sekúndur á klukkunni.

Þessir ungu stuðningsmenn Stjörnunnar voru glaðir í leikslok.Vísir/Guðmundur

Síðustu sekúndurnar virtust endalausar, Grindavík klúðraði innkastinu sínu og Garðbæingar köstuðu sínu innkasti í kjölfarið í hendur Jeremy Pargo sem náði ekki að finna samherja á leið sinni upp völlinn. Stjarnan náði að herja út sigurinn, lokatölur 100-99 og Garðbæingar komnir í 2-0 stöðu í einvíginu.

Atvik leiksins

Það voru svo mörg stór atvik í þessum leik. Karfan sem Grindvíkingar fengu eftir maraþonfund hjá dómurum stefndi lengi vel í að vera það sem skildi á milli, þeir fengu þá tvö stig eftir að dómarar og eftirlitsmaður hefðu fundað lengi um það hvort Grindvíkingar mættu biðja um að dómarar færu í skjáinn. Grindvíkingar komust þá í sjö stiga forystu.

Hilmar Smári í baráttunn við Kristófer Breka Gylfason og DeAndre Kane.Vísir/Guðmundur

Atvikið þegar tíu sekúndur voru eftir var stórt, Garðbæingar fengu þá innkast eftir dómarafund og Ægir skoraði körfu í kjölfarið sem kom Garðbæingum yfir, karfa sem reyndist sigurkarfan í leiknum.

Eftir það gerðist samt svo margt, fyrst köstuðu Grindvíkingar boltanum útaf úr innkasti og síðan Garðbæingar í hendurnar á Grindvíkingum einnig úr innkasti. 

Jese Febres átti frábæran leik fyrir Stjörnuna líkt og DeAndre Kane fyrir Grindavík.Vísir/Guðmundur

Það var svo eiginlega saga leiksins að Grindavík skyldi ljúka honum á töpuðum bolta í tilraun til að komast upp völlinn og tryggja sér sigurinn, tapaður bolti númer tuttugu og tvö hjá heimamönnum í leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Frammistaða DeAndre Kane í þessum leik átti skilið að vera fyrir sigri. Hann skoraði 25 stig, tók 11 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og var með 40 framlagsstig. Algjörlega stórkostlegur leikur af hans hálfu. Jeremy Pargo steig upp í stigaskorun í fjórða leikhluta en það er ekki hægt að horfa framhjá því að hann spilaði illa í fyrri hálfleik og átti þátt í tveimur töpuðum boltum á ögurstundu undir lokin. 

Hart barist í Smáranum.Vísir/Guðmundur

Valur Orri Valsson skoraði 9 góð stig af bekknum en tapaði 5 boltum. Alls voru töpuðu boltarnir 22 hjá Grindavík sem er ekki boðlegt í leik sem þessum en merki um grimman varnarleik Stjörnunnar.

Hjá Stjörnunni var Jase Febres frábær, skoraði 24 stig og þó Ægir Þór Steinarsson hafi haft hægt um sig í stigaskori þá gaf hann 13 stoðsendingar og skoraði sigurkörfuna í leiknum. Shaq Rombley var mjög öflugur undir körfunni og nýtti færin sín vel.

Dómararnir

Þeir flautuðu afar mikið og í fyrri hálfleiknum var búið að dæma tuttugu og fjórar villur og þrír leikmenn inni á vellinum komnir í villuvandræði með þrjár villur. 

Grindvíkingar verjast Shaquille Rombley.Vísir/Guðmundur

Þeir þurftu síðan að taka margar stórar ákvarðanir í lokin og nýttu skjáinn í nokkur skipti. Í eitt skiptið óskuðu Grindvíkingar eftir að atvik væri skoðað í skjánum, eftir að Shaq Rombley varði skot frá Ólafi Ólafssyni sem vildi meina að Rombley hefði gert það ólöglega. 

Það virtist enginn vera með á hreinu hvort Grindvíkingar mættu biðja um skoðun í skjá enda hafði leikurinn haldið áfram eftir atvikið og meira að segja dæmd villa á DeAndre Kane. Eftir maraþonfund var það gert og Grindavík fékk tvö stig og það sem meira er, þá var villan á Kane tekin til baka.

Stemmning og umgjörð

Grindvíkingar hentu í eitt stykki fjölskyldudag í Smáranum í tilefni fyrsta sumardags. Hoppukastalar fyrir krakkana og borgarar og öl fyrir þá fullorðnu. Þangað mættu stuðningsmenn beggja liða sem síðan fylltu Smárann og sköpuðu frábæra stemmningu.

Viðtöl

„Við áttum alla möguleika á að vinna“

„Mér finnst eins og við höfum unnið leikinn þrisvar sinnum en alltaf fundið leið til að rétta þeim hann á ný. Við þurfum að vera klárari en við fáum annað tækifæri í næstu viku,“ sagði Jeremy Pargo leikmaður Grindavíkur eftir tap gegn Stjörnunni í æsispennandi leik í kvöld.

Hann sagði Grindvíkinga geta sjálfum sér um kennt og tók sjálfur á sig ábyrgð.

Jeremy Pargo með boltann gegn Ægi Þór Steinarssyni.Vísir/Guðmundur

„Það voru mistökin okkar, það var ekkert eitthvað frábært sem þeir gerðu. Við áttum einhverjar fimm lélegar sóknir í röð og þetta voru mistökin okkar og mörg þeim hjá mér.“

„Svona er körfubolti, það er ekki hægt að vera fullkominn í hverjum leik. Þannig er það.“

Hann hafði þó engar áhyggjur af því að Grindavík gæti ekki komið til baka, nú þegar staðan í einvíginu er 2-0 fyrir Stjörnuna.

„Þetta er körfubolti, af hverju ætti þetta að vera erfitt eða eitthvað öðruvísi?“

Pargo skýtur að körfunni í leiknum.Vísir/Guðmundur

Andri Már spurði Pargo síðan eigin frammistöðu en hann átti ekki sinn besta leik í fyrsta leik liðanna og náði sér ekki almennilega á strik í stigaskori fyrr en í fjórða leikhluta í kvöld.

„Í síðasta leik var ég með 12 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og engan tapaðan bolta. Er það lélegur leikur?“

„Já, þið töpuðuð,“ svaraði Andri Már þá.

„Já, við töpuðum en þú ert að tala um mig? Já, það var lélegur skotleikur? Svona er lífið, þú getur ekki hitt úr hverju skoti. Ég bætti mig eftir hlé í kvöld, er það ekki?“spurði Pargo og benti á stigatöfluna.

„Við áttum alla möguleika á að vinna, ég gerði mistök í lokin og í byrjun. Ég tek ábyrgð á því, ég get ekki verið fullkominn og ég er sáttur með það.“

Pargo í baráttunni í leiknum í kvöld.Vísir/Guðmundur

Hann var sultuslakur þegar Andri Már spurði hann svo að því hvort Grindavík gæti komið til baka.

„Þetta er körfubolti og við þyrftum að vinna leikinn þó við værum 2-0 yfir. Við yrðum samt að vinna leik, við mætum af krafti og þetta verður í lagi. Þetta verður í lagi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira