Erlent

Leysa upp sam­tökin og leggja niður vopn

Atli Ísleifsson skrifar
Abdullah Öcalan, leiðtogi PKK, hvatti í febrúar liðmenn samtakanna til að leggja niður vopn og að samtökin verði leyst upp. Hann hefur setið í fangelsi frá árinu 1999.
Abdullah Öcalan, leiðtogi PKK, hvatti í febrúar liðmenn samtakanna til að leggja niður vopn og að samtökin verði leyst upp. Hann hefur setið í fangelsi frá árinu 1999. AP

Ákvörðun hefur verið tekin um að leysa upp PKK, Verkamannaflokk Kúrda, og að liðsmenn þess skuli leggja niður vopn. 

Þetta var ákveðið á ráðstefnu samtakanna í norðurhluta Íraks í síðustu viku að því er kúrdíska fréttaveitan Firat segir frá.

PKK hefur lengi barist fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda og kann þetta að marka endalok átaka sem hafa staðið milli Kúrda og tyrkneskra stjórnvalda í um fjörutíu ár.

Sagt var frá því í febrúar að Abdullah Öcalan, leiðtogi PKK, hafi hvatt liðmenn samtakanna til að leggja niður vopn og að samtökin verði leyst upp. Öcalan hefur setið í fangelsi á eynni Imrali í Marmarasundi í Tyrklandi frá árinu 1999 þar sem hann afplánar lífstíðardóm.

Fáeinum dögum eftir yfirlýsingu Öcalan í febrúar var greint frá því að PKK hafi lýst yfir vopnahléi gegn því að samið yrði um ramma um friðarviðræður. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti fagnaði á sínum tíma yfirlýsingunni.

PKK var stofnað á áttunda áratugnum og hafði það að markmiði að koma á sjálfstæði Kúrda í Tyrklandi. Bæði stjórnvöld í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu hafa skilgreint PKK sem hryðjuverkasamtök.

Rúmlega 40 þúsund manns hafa látið lífið í átökum uppreisnarsveita Kúrda og Tyrkja síðustu áratugi, en átökin stóðu hvað hæst á níunda og tíunda áratugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×