Erlent

Tekur U-beygju og kallar stuðnings­menn sína aumingja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump gerði mikið úr samsæriskenningum í kosningabaráttunni en segir Epstein-málið nú storm í vatnsglasi.
Trump gerði mikið úr samsæriskenningum í kosningabaráttunni en segir Epstein-málið nú storm í vatnsglasi. Chris Unger/Zuffa LLC

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist hafa misst þolinmæðina gagnvart stuðningsmönnum sínum sem hafa kallað eftir því að yfirvöld birti öll gögn er varða mál auðmannsins og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein.

Forsetinn sagði á þriðjudag að hann skildi ekki uppnámið og sagði að yfirvöld ættu að birta öll „trúverðug“ gögn í málinu en í gær fór hann mikinn á samfélagsmiðli sínum Truth Social og sakaði „FYRRVERANDI“ stuðningsmenn sína um að falla fyrir samsæriskenningum „vinstri geðsjúklinga“.

Trump er kominn í smá bobba en þrátt fyrir að hann vilji nú gera lítið úr Epstein-málinu og segi það storm í vatnsglasi, varði hann miklu púðri í það í kosningabaráttu sinni að ala á samsæriskenningum um skuggaelítu og barnaníðingahring í Washington og víðar.

Stuðningsmenn hans sem aðhyllast samsæriskenningarnar, og telja meðal annars að Epstein hafi verið komið fyrir kattanef af áhrifaríkum einstaklingum sem óttuðust um eigin hag, hafa kallað eftir því að öll gögn verði gerð opinber en nú segja undirmenn Trump að þau séu í raun fá og ómerkileg.

Þannig hefur komið upp úr krafsinu að svokallaður Epstein-listi, sem átti að innihalda nöfn valdamikilla einstaklinga, er mögulega ekki til, jafnvel þótt dómsmálaráðherrann Pam Bondi hafi sagst hafa hann undir höndum á sínum tíma.

„Leyfum þessum aumingjum að halda áfram að vinna vinnuna fyrir Demókrata,“ sagði Trump um stuðningsmenn sína á Truth Social í gær; hann kærði sig ekki lengur um hylli þeirra.

Þá kallaði hann eftir því að Alríkislögreglan rannsakaði „Epstein-gabbið“, sem hann sagði glæpsamlegt samsæri gegn sér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×