Við­töl: FH – Þór/KA 5-3 | Markasúpa í Hafnafirði

Hörður Unnsteinsson skrifar
Arna Eiríksdóttir fagnar með liðsfélögum sínum eftir mark gegn FHL um helgina.
Arna Eiríksdóttir fagnar með liðsfélögum sínum eftir mark gegn FHL um helgina. vísir/Guðmundur

Það var boðið upp á rjúkandi heita og matarmikla markasúpu í Kaplakrika í kvöld þegar FH tók á móti Þór/KA í Bestu deild kvenna en alls voru átta mörk skoruð í kvöld.

Það var alltaf að fara vera erfitt að toppa skemmtunina í Kaplakrikanum í gærkvöldi, þegar FH og ÍA mættust í Bestu deild karla, en það tókst svo sannarlega í kvöld. Eftir 32 mínútna leik voru komin sex mörk í leikinn og urmull af færum. FH liðið var mun sterkara í síðari hálfleiknum og 5-3 sigur heimakvenna var á endanum sanngjörn úrslit.

Eftir frekar jafna byrjun komust FH-ingar yfir á 11. mínútu leiksins þegar Elísa Lana Sigurjónsdóttir átti fínt skot að marki norðankvenna sem Jessica Berlin varði í markinu, en boltinn barst beint fyrir fætur Thelmu Lóu Hermannsdóttur sem kláraði af miklu öryggi. 1-0 fyrir FH.

Það tók Þór/KA þó ekki nema tvær mínútur að jafna metin. Karen María Sigurgeirsdóttir tók þá hornspyrnu frá hægri beint á kollinn á Huldu Björg sem náði föstum skalla að marki, Macy Elisabeth varði skallann en Sonja Björg Sigurðardóttir kom askvaðandi og skóflaði boltanum yfir marklínuna. Það má sannarlega setja spurningarmerki við hvort þetta mark hafi verið löglegt eða ekki, það virtist vera eins og Macy hafi verið komin með báðar hendur á boltann. Staðan 1-1.

Á 23. mínútu fengu Þór/KA aukaspyrnu á miðjum vellinum, vanalega ekki hættulegur staður til að fá á sig aukaspyrnur – en Hulda Björg Hannesdóttir lúðraði boltanum inn á teig FH-inga og landsliðskonan Sandra María Jessen skallaði boltann í þverslánna og inn. Frábær spyrna frá Huldu og þrususkalli frá Söndru Maríu.

Rétt eins og í fyrstu mörkum leiksins, þá tók það FH-inga ekki nema tvær mínútur að jafna metin. Thelma Lóa átti flotta sendingu inn fyrir vörn Þórs/KA, þar var Maya Hansen ein á auðum sjó. Jessica í markinu var komin langt út á móti henni og eftirleikurinn einfaldur fyrir Maya. 2-2 eftir 25 mínútna leik.

FH konur létu kné fylgja kviði og skoruðu þriðja mark sitt á 32. mínútu leiksins. Thelma Karen vann boltann af harðfylgi upp við hornfánann hægra megin, réðst inn á teiginn og lagði boltann fyrir fætur Elísu Lönu sem skaut að marki og Thelma Lóa fylgdi knettinum yfir marklínuna. Annað mark hennar í leiknum.

Venju samkvæmt tók það Þór/KA aðeins tvær mínútur að jafna metin. Enn og aftur var það aukaspyrna frá Huldu Björg sem að skapaði usla. Föst spyrna Huldu skoppaði af nöfnu hennar Huldu Ósk Jónsdóttur fyrir fætur Margrétar Árnadóttur sem jafnaði metin í 3-3 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Algjörlega stórkostleg skemmtun á Kaplakrikavelli.

Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri og greinilegt að þjálfarar liðanna höfðu lagt áherslu á varnarleik í hálfleiksræðum sínum. FH-ingar vörðust föstum leikatriðum norðankvenna betur og Þór/KA gekk betur að hemja vængspil FH liðsins.

Það voru einstaklingsgæði Elísu Lönu og Thelmu Lóu sem að brutu ísinn í síðari hálfleiknum. Stungusending í hæsta gæðaflokki frá Elísu og afgreiðslan ekki síðri frá Thelmu. 4-3 fyrir FH og þar við sat þangað til varamaðurinn Ingibjörg Magnúsdóttir skoraði laglegt mark í uppbótartíma til að reka smiðshöggið á sigur FH og koma þeim í 2. sæti deildarinnar með 31 stig. Þær halda áfram eltingaleiknum á eftir Blikum, sem þær einmitt mæta í bikarúrslitaleik á Laugardalsvelli á laugardaginn.

Atvikið

Sigurmark leiksins frá Thelmu Lóu er klárlega atvik leiksins. Eftir kolgeggjaðan fyrri hálfleik þá róuðust leikar umtalsvert í þeim síðari og ljóst að það þyrft einhver einstaklingsgæði til að gera út um leikinn fyrir annað hvort liðið. Þau komu frá Elísu Lönu og Thelmu Lóu, stórkostleg stungusending Elísu féll beint fyrir fætur Thelmu Lóu sem fullkomnaði þrennu sína með frábæru skoti í stöngina og inn.

Stjörnur og skúrkar

Elísa Lana og Thelma Lóa voru arkitektarnir af þessum sigri FH. Thelma Lóa með þrjú mörk og stoðsendingu, og Elísa Lana með tvær stoðsendingar. Báðar voru frábærar í FH liðinu en Thelma Lóa tekur nafnbótina maður leiksins með því að eiga þátt í öllum mörkum liðsins.

Varnir beggja liða voru hriplekar í fyrri hálfleiknum, og markverðir liðanna áttu einnig sinn þátt í mörkum andstæðingana. Jóhann Kristinn kippti Henríettu út af í fyrri hálfleiknum eftir að hún átti stóran þátt í þriðja marki FH.

Dómarateymið

Guðmundur Páll og hans teymi komust mjög vel frá leiknum. Hann greip inn í þegar þess þurfti með spjöldum á hárréttum augnablikum. Eina vafaatriðið var fyrsta mark Þórs/KA sem að virkaði ólöglegt í endursýningu, en það hafði sem betur fer ekki áhrif á úrslit leiksins.

Viðtöl

Viðtöl væntanleg

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira